145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[19:43]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er framsögumaður að áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í þessu stóra og umdeilda og viðamikla máli. Nefndarálitinu fylgir frávísunartillaga. Við leggjum til í lok álitsins að frumvarpinu verði vísað aftur til ráðherra og honum falið að efna til þverpólitísks samráðs um nýtt námslánakerfi og nýtt námsstyrkjakerfi. Ég vil taka skýrt fram í upphafi að við sem stöndum að þessu áliti og leggjumst gegn frumvarpinu styðjum að það verði komið á blönduðu kerfi námsstyrkja og námslána. Ég held að það sé samhljómur meðal allra flokka, meðal allra þingmanna hér á þingi, að það sé skynsamlegt að gera það.

Því er það með vissri sorg í hjarta, ákveðnum trega, sem maður stendur hér og verður einfaldlega eftir að hafa kynnt sér þetta mál, eftir efnislega yfirferð yfir það, að lýsa því yfir að þetta frumvarp er alveg ómögulegt. Það er alveg meingallað. Það gengur á svig við svo margar grundvallarhugsjónir, að mínu mati og okkar í minni hlutanum, þegar kemur að uppbyggingu menntakerfisins á Íslandi að ekki er nokkur leið að samþykkja það. Þetta er sorglegt. Eins og ég segi held ég að það sé algerlega þverpólitískur stuðningur við að koma á blönduðu kerfi námslána og námsstyrkja. Ég held að það sé algerlega þverpólitískur stuðningur við það líka að koma loksins til móts við það áratugagamla baráttumál stúdenta að afnema t.d. eftirágreiðslur. Það er samhljómur um eitt og annað og mjög stóra hluti varðandi námslánakerfið í þessum sal. Þess vegna skil ég ekki af hverju hæstv. menntamálaráðherra gerði ekki eins og við höfum gert á þessu kjörtímabili í stórum, veigamiklum málum eins og t.d. endurskoðun laga um útlendinga, útlendingafrumvarpið, og efndi til þverpólitísks samráðs allra flokka hér á Alþingi um nýtt námslánakerfi. Við gætum þá setið hér og greitt atkvæði um nýtt framsækið námslánakerfi, sambland námsstyrkja og námslána, sem virti grundvallaratriði eins og jafnrétti fólks til náms óháð efnahag. Það hefði verið æðislegt. Vonandi lærir hæstv. ráðherra og aðrir í stjórnarmeirihlutanum það af þessu að það er alltaf betra að efna til samráðs. Sérstaklega þegar það eru vísbendingar um að það sé sterk þverpólitísk samstaða um ákveðin grundvallaratriði.

Hvað er að þessu frumvarpi? Stóra, veigamikla atriðið er að hér er verið að höggva að því grundvallaratriði að hér ríki jafnrétti til náms óháð efnahag. Það eru engir nýir, meiri peningar settir inn í námslánakerfið samkvæmt frumvarpinu. Það er ekki grundvallarhugsunin hér. Hér á að spila með þá peninga sem fyrir hendi eru. En þeir eru færðir til. Nú á að veita öllum námsstyrki, þar á meðal námsmönnum sem hingað til hafa ekki þurft aðstoð. Um helmingur stúdenta þiggur ekki námsaðstoð einhverra hluta vegna. Stór hluti þeirra væntanlega vegna þess að hann þarf hana ekki. Nú á að veita öllum þessum stúdentum námsstyrk að upphæð 65 þús. kr. á mánuði fyrir skatt. Gott og vel. Hverjir greiða fyrir þetta? Það eru þeir stúdentar sem þurfa námslán. Vextir á námslánum verða hækkaðir um 200%. Úr 1% í 3%. Þannig á að fjármagna styrkjakerfið. Þarna liggur hið bersýnilega óréttlæti í frumvarpinu. Þeir sem eru í slæmri félagslegri stöðu, eins og t.d. einstæðir foreldrar, svo ég tali nú ekki um einstæða foreldra sem vilja fara í langt nám, jafnvel doktorsnám, og þurfa þess vegna að taka mikið lán, munu þurfa að borga. Borga meira. Til þess að kosta það að allir geti fengið námsstyrki.

Það hefði verið svo miklu nær að hanna kerfið þannig að öllum byðust hagstæð lán. Jafnrétti til náms væri tryggt þannig að öllum sem hyggja á nám á Íslandi byðust hagstæð lán á góðum kjörum. Síðan mundum við nota styrkina sem við mundum innleiða í þetta kerfi til þess að jafna félagslega stöðu, til þess að styrkja metnaðarfulla stúdenta til árangurs. En það er ekki gert í frumvarpinu. Bara út af þessu grundvallaratriði, sem vitaskuld var ekki hægt að breyta við umfjöllun nefndarinnar því að það liggur til grundvallar frumvarpinu, er ekki hægt að samþykkja þetta.

Síðan er það ákveðin stúdía sem maður fer með út í lífið, ákveðinn lærdómur, hvernig maður uppgötvaði það smám saman í vinnu nefndarinnar að það var verið að blekkja með tölum þegar frumvarpið var lagt fram. Hér var trommað fram með frumvarpið og sagt að þetta væri svo æðislegt kerfi að 90% stúdenta mundu greiða minna í afborganir í framtíðinni. Þrátt fyrir að verið væri að afnema algerlega tekjutengingar á afborgunum af námslánum mundu 90% stúdenta greiða minna. Það tók smá tíma fyrir okkur í minni hlutanum að átta okkur á hvað lá til grundvallar þessari fullyrðingu. Það var alveg ótrúlegt þegar það kom í ljós að upplifa hversu óskammfeilinn blekkingaleikurinn var. Forsenda þessarar fullyrðingar er sú að stúdentar muni í nýja kerfinu einhverra hluta vegna ekki nýta sér fullan lánsrétt. Þeir muni í nýja kerfinu ákveða að bætur sem þeir eiga rétt á, eins og barnabætur og húsaleigubætur og mögulega aðrar bætur, meðlag, muni koma til frádráttar námsláninu krónu fyrir krónu. Þetta liggur til grundvallar. Að skyndilega muni stúdentar ákveða að gera þetta, þrátt fyrir að einungis 18% stúdenta í könnunum hingað til lýsi því yfir að námslán séu nægjanleg. Stúdentar eru nú þegar, þegar við á, að þiggja styrki og bætur. Það er algerlega órökstutt af hverju þeir ættu í nýju kerfi að taka lægri lán vegna þess að þeir þiggja bætur. Þeir gera það ekki núna.

Hvernig lítur þá dæmið út ef við skoðum tilvik námsmanna í þröngri, félagslegri stöðu sem vilja taka full námslán í nýja kerfinu eins og þeir hafa verið að gera í gamla kerfinu? Dæmið lítur þá þannig út að einstætt foreldri með tvö börn sem tekur fullt námslán núna í því kerfi sem við búum við núna og þiggur bætur mun þurfa, samkvæmt þeim forsendum sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar og ráðuneytið leggja upp með, þurfa að sætta sig við u.þ.b. 200 þús. kr. minna ráðstöfunarfé á mánuði. 200 þús. kr. minna á mánuði í námi til þess að forsendur fullyrðinga meiri hlutans um minni greiðslubyrði gangi upp. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, algerlega órökstutt, að stúdentar jafnvel í mjög þröngri stöðu eins og einstætt foreldri með tvö börn séu reiðubúnir allt í einu að taka 200 þús. kr. minna á mánuði til að framfleyta sér.

Auðvitað ef menn leggja upp með svona forsendu, að fólk verði allt í einu reiðubúið til að gera þetta, fá þeir út að viðkomandi muni borga minna í afborganir af námslánum í framtíðinni. Það er vegna þess að gert er ráð fyrir að viðkomandi taki miklu lægri námslán. En það er ekki rökstutt. Þessu er bara kastað fram. Þegar maður skoðar frumvarpið með þeim augum og gerir ráð fyrir að þorri stúdenta muni nýta lántökurétt sinn til fulls, nógu naumt er nú skammtað samt, kemur auðvitað í ljós að það má leiða að því mjög sterkar líkur að meginþorri stúdenta muni borga miklu meira í afborganir af námslánum í framtíðinni. Það var nú svolítið til að hleypa kergju í þó umdeilt mál að uppgötva í miðjum klíðum að þetta voru forsendur útreikninganna. Þær voru svona lélegar. Og ekkert gert af hálfu meiri hlutans til að reyna einhvern veginn að útskýra þetta, af hverju var lagt upp með svona blekkingaleik.

Auðvitað blasti það við öllum í upphafi að það hlýtur að bitna á meginhugsun um jafnrétti til náms óháð efnahag að ætla að færa öllum námsstyrki en hækka vextina á þeim sem þurfa lán. Það liggur ljóst fyrir að þeir sem þurfa hæstu lánin eru þeir sem eru í erfiðri félagslegri stöðu, þeir sem hafa lítið á milli handanna. Líka þeir sem ætla í langt, metnaðarfullt nám. Það eru líka þeir sem þurfa að borga skólagjöld og fá lán fyrir þeim sem verða takmörkuð, reyndar samkvæmt frumvarpinu. Þeir munu þurfa að borga hærri vexti, þeir munu þurfa að greiða fyrir þetta ævintýri. Þar sem þetta er uppleggið er augljóst að ekki er hægt að styðja frumvarpið ef maður aðhyllist einhverjar hugmyndir um jöfnuð og lágmarksréttlæti í námslánakerfinu. Þar að auki gef ég mér í þessari afhjúpun á þeim blekkingaleik sem liggur til grundvallar frumvarpinu að við séum að tala um einstætt foreldri með tvö börn sem útskrifast, segjum 27 ára. Ef viðkomandi útskrifast hins vegar 37 ára eftir fimm ára nám og á kannski ekki von á háum framtíðartekjum, hefur kannski menntað sig til starfa hjá stórum stéttum á vegum hins opinbera sem njóta ekki allt of mikilla tekna, þá verður þetta nánast ókleifur múr því að á sama tíma og verið er að afnema tekjutengingu afborgana er verið að innleiða aldurstengingu afborgana. Lagt er upp með það í frumvarpinu að allir eigi að vera búnir að borga sín námslán fyrir 67 ára aldur. Það þýðir að sá sem útskrifast 37 ára en ekki 27 ára þarf að greiða lánið sitt á 30 árum en ekki 40. Auðvitað hækkar þá afborgunin sem því nemur. Hér er verið að gera fólki alveg rosalega erfitt fyrir að fara í nám síðar á lífsleiðinni, gera því sérstaklega erfitt fyrir ef það er í erfiðri félagslegri stöðu, gera því einstaklega erfitt fyrir ef það skyldi nú vera í erfiðri félagslegri stöðu og ætla að fara í metnaðarfullt langt nám. Áherslurnar eru allar gegn því grundvallarprinsippi að varðveita jafnrétti til náms óháð efnahag.

Það er ekki nokkur leið að styðja frumvarp af þessu tagi og það er ágætt að fá tækifæri til að lýsa í hverju andstaðan felst. Það er ekkert gaman að fá yfir sig yfirlýsingar utan úr bæ, í þessu tilviki frá vissu forustufólki stúdentahreyfinganna, með ásökunum um að við í minni hlutanum séum að reyna að stöðva þetta mál út af einhverri pólitískri refskák í þinglok. Þetta er ekki þannig. Línurnar í þessu máli varða algjörlega grundvallarágreining í pólitík. Ég greini þetta þannig að ríkisstjórnin skilji ekki hvað felst í hugtakinu jöfnuður. Hún fattar ekki hvernig á að reyna að jafna stöðu fólks. Hún heldur að það sé jöfnuður að láta alla hafa námsstyrk upp á 65 þúsund kall. Hún heldur að það sé jöfnuður. En það er auðvitað ekki jöfnuður ef námsstyrkurinn er greiddur því verði að fólk í vondri félagslegri stöðu þurfi að greiða fyrir það. Og þetta er allt á sömu bókina lært hjá ríkisstjórninni. Menn leggja lykkju á leið sína til að reyna á einhvern hátt að hjálpa þeim sem má halda fram með sterkum rökum að þurfi enga sérstaka hjálp, eru bara að gera góða hluti, á kostnað þeirra sem í raun og veru þurfa hjálp.

Ef við lítum á dæmið þannig að fólk muni fullnýta rétt sinn til námslána og taka full námslán ásamt námsstyrknum á námsferlinum eins og er alveg eðlilegt að gera ráð fyrir, hvaða hópur kemur þá vel út úr þessu frumvarpi? Hvaða hópur mun njóta þess að borga minna á mánuði í afborganir af námslánum í framtíðinni? Einstæðingar sem búa í foreldrahúsum. Þeir koma vel út úr þessu. Það er áherslan. Af hverju? Af hverju er það áherslan? Af hverju erum við ekki að reyna að hjálpa þeim sem búa við kröpp kjör, þrönga stöðu? Af hverju leggjum við ekki upp með frumvarp þar sem við reynum t.d. að hjálpa þeim sem koma utan af landi og eiga erfiðara með að finna húsnæði í borginni og þurfa jafnvel að borga miklu meira því að þeir koma utan af landi til að sækja sér menntun í höfuðborginni? Af hverju reynum við ekki að hjálpa fólki sérstaklega sem er með börn í námi? Af hverju reynum við ekki að hjálpa fólki sem ákveður kannski síðar á lífsleiðinni en eðlilegt er miðað við meðaltal að sækja sér menntun? Ákveður jafnvel að endurmennta sig eftir eitthvert mikið áfall á lífsleiðinni? Af hverju erum við ekki með þannig frumvarp? Frumvarp sem hjálpar þeim sem vilja virkilega leita sér langtímamenntunar, doktorsnáms í góðum háskólum erlendis, og þurfa aðstoð til þess? Af hverju erum við að setja öllu þessu fólki slíkar skorður? Hver er pælingin með því? Ég fatta þetta ekki alveg.

Þessar skorður eru allar reistar svo allir geti fengið þennan námsstyrk upp á 65 þúsund kall. Það er æðislega fínt að dreifa peningum með þeim hætti. En hann er bara greiddur þessu verði, þessi styrkur. Við þurfum að greiða fyrir þennan styrk með alls konar fáránlegum takmörkunum sem eiga ekkert erindi inn í eðlilegt og metnaðarfullt námslánakerfi þar sem reynt er að tryggja jafnrétti til náms og að hjálpa stúdentum að leita sér metnaðarfullrar menntunar. Bara það að afnema tekjutengingu á afborgunum námslána hlýtur að leiða til þess að við reynum að beina fólki í nám sem telst samkvæmt einhverjum skammtímamælikvörðum vera arðbærara en annað. Það hlýtur bara að vera. Ég get ekki séð annað. Og meira segja komu umsagnir frá fulltrúum úr atvinnulífinu sem fögnuðu því að stúdentum væri beint í nám sem væri arðbært. Þessi hugsun gengur líka algerlega gegn því sem ég tel að eigi að einkenna gott og réttlátt námslánakerfi. Námslánakerfið á að stuðla að fjölbreytni. Það á að hvetja fólk til að leita sér menntunar samkvæmt áhugasviði sínu, samkvæmt eigin metnaði. Það á að hvetja og aðstoða fólk til að elta sína drauma, virkja hæfileika sína, algerlega óháð því hvort viðkomandi einstaklingar sjái fyrir sér að þeir verði eitthvað rosalega ríkir á að fara í þetta nám.

Hvaða hópur er það t.d. sem kemur einstaklega illa út úr þessu frumvarpi? Listnemar. Listnemar ríða nú ekki oft feitum hesti frá mánaðarlegum launaseðli og listamenn í samfélaginu þó að þeir skapi mikil verðmæti. Þeir þurfa að borga skólagjöld, oft himinhá. Okkar færustu listamenn sem komast inn í frábæra listaháskóla erlendis þurfa að standa straum af miklum kostnaði við skólagjöld og hér heima líka, í Listaháskóla Íslands. Nú á að takmarka lán til skólagjalda. Þetta er augljóslega hópur sem mun þurfa lán til skólagjalda en mun þurfa að borga meira því að vextirnir verða hærri.

Hér er bara verið að miða á þá sem eru í slæmri fjárhagslegri stöðu. Gagngert, markvisst, er með frumvarpinu verið að reyna að hafa meira fé af fólki sem er í slæmri stöðu fjárhagslega.

Svo er annað. Frumvarpið er svo augljóslega samið af aðilum innan Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það eitt og sér er gagnrýnisvert. Lánasjóðurinn sjálfur, LÍN, á ekkert að vera að semja frumvarp um LÍN. Frumvarp um LÍN á að vera samið af okkur sem sitjum hérna í þingsal, okkur sem höfum hugsjónir í þessu máli, sjáum fyrir okkur námslánakerfi sem grundvallarfjárfestingu í menntun. En þetta frumvarp ber þess svo rosalega vitni að það er samið af LÍN til að verja sína þröngu hagsmuni. Ég ætla að rekja það aðeins.

Hvarvetna í frumvarpinu eru LÍN faldar allt of miklar heimildir til að útfæra reglur í úthlutunarreglum, útfæra veigamikil atriði sem kunna að vera umdeilanleg í úthlutunarreglum. Allt of mikið vald er fært stjórn LÍN. Svo er það líka þannig að LÍN fær nánast skotleyfi á þá sem munu skulda LÍN í framtíðinni. Kröfur LÍN njóta alveg ótrúlegrar stöðu í kröfuumhverfinu á Íslandi. LÍN getur án sátta og án dóms gert aðför að skuldurum í vanskilum. LÍN getur enn þá krafist ábyrgðarmanna, sem er ótrúlegt, ef ástæða þykir til. Meiri hlutinn hafnaði því algerlega að setja í lög að ábyrgðir á námslánum, sem eru þó nokkrar enn þá í kerfinu þó svo að Alþingi hafi ákveðið að ábyrgðir á námslánum skyldu afnumdar að meginreglu, eigi ekki að erfast. Sem er ótrúlegt. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur á undanförnum árum gefið í í innheimtu gagnvart erfingjum ábyrgðarmanna, jafnvel án þess að láta þá vita. Lánasjóður íslenskra námsmanna er uppvís að því að fara ekki eftir lögum um ábyrgðarmenn, beita einstaklega ómanneskjulegum og harðneskjulegum aðferðum í innheimtu, neita að fara eftir samkomulagi fjármálastofnana um eðlilega viðskiptahætti þegar kemur að ábyrgðarmönnum. Og ákvað svo sem sagt að ábyrgðir skyldu erfast og nýta sér þar með glufu í lögunum. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar ætlar ekkert að taka á þessu. Hann ætlar að leyfa lánasjóðnum að halda áfram á þessari braut þrátt fyrir að námslán séu þannig að þau erfast ekki frá lántaka til erfingja. En ábyrgðin á að erfast frá ábyrgðarmanni til erfingja. Þetta er stórkostlegt óréttlæti. Umboðsmaður skuldara kom líka á fund nefndarinnar og rakti það að hátt í þriðjungur þeirra sem leitar til umboðsmanns skuldara er í vandræðum vegna námslánaskila. Og það er enn gefið í, það á ekki að leyfa neinar afskriftir af námslánum gagnvart þeim sem eru í erfiðri stöðu heldur gefa í og kröfur vegna námslána eiga ekki að fyrnast þótt það komi til gjaldþrotaskipta. Það á bara að elta fólk með þessar skuldir. Meira að segja var lagt upp með það í frumvarpinu að jafnvel þó að fólk yrði fyrir verulegum áföllum í lífinu sem gersamlega breyta öllum forsendum til lífsafkomu átti það bara að fá að fresta afborgunum í þrjú ár. Svo átti fólk að borga. Jafnvel þótt það gæti ekkert borgað. Blessunarlega ákvað ráðuneytið og meiri hlutinn þó að breyta þessu. Það má í þeim tilvikum þar sem greinilega blasir við að viðkomandi hefur orðið fyrir rosalegu áfalli að fella námslán niður. En að öðrum kosti hefur lántakinn og ábyrgðarmenn og jafnvel erfingjar þeirra alltaf minni og minni rétt gagnvart þessari stofnun.

Við í minni hlutanum áréttum það að við viljum setja inn ákvæði þar sem LÍN er gert skylt að þurfa að semja, leita sátta, við lántakendur áður en kemur til aðfarar, áður en lán er gjaldfellt. Er það ekki bara eðlilegt? Við viljum líka að LÍN sé gert óheimilt að selja þessa innheimtuþjónustu til utanaðkomandi aðila, setja í lögfræðiinnheimtu. Þessar kröfur njóta það sterkrar stöðu að það ætti að vera óheimilt fyrir lánasjóðinn að útselja innheimtu á þessum kröfum. Um það getur ekki orðið sátt. Og sérstaklega getur ekki orðið sátt um þessar harðneskjulegu innheimtuaðferðir lánasjóðsins núna þegar við blasir og það er algerlega innprentað í frumvarpið að þeir sem munu verða í mestum vandræðum með að borga í framtíðinni eru þeir sem eru í þröngri félagslegri stöðu. Þeir sem þurfa að taka há lán. Þessi boðaða innspýting í harðneskju í innheimtuaðgerðum lánasjóðsins rímar alveg ótrúlega ömurlega við þessa áherslu að gera þeim sem eru í erfiðri félagslegri stöðu sérstaklega erfitt fyrir. Það leggst einhvern veginn allt á eitt í ómanneskjulegheitum. Það er eins og það sé alveg sérstakt markmið að gera þetta að ómanneskjulegu kerfi.

Svo er ótrúlegt að eina félagslega ívilnunin sem er þó skrifuð inn í frumvarpið er sú að afborganir af námslánum falla niður í ákveðinn tíma þegar fólk er að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er eina ívilnunin. Það hefur verið rakið í öðrum málum hér að þeir sem geta keypt sína fyrstu íbúð fljótlega eftir nám eru fyrst og fremst þeir sem hafa mjög mikið milli handanna, eiga pening og eiga fyrir fyrstu útborgun. Eru einfaldlega í álnum þannig að þeir geti keypt sér íbúð. Af hverju þarf að ívilna þeim sérstaklega í námslánakerfinu? Sérstaklega í frumvarpi þar sem þeim sem augljóslega ætti að ívilna á einhvern hátt, fólki utan af landi, fólki í löngu námi, fólki í erfiðri félagslegri stöðu, er ekki ívilnað. Þá er þetta eini hópurinn sem á að njóta einhverrar ívilnunar. Stundum finnst manni bara eins og það sé verið að grínast með þessu frumvarpi. Það er ótrúlega sorglegt að klúðra þessu verkefni sem er að koma á réttlátu, sanngjörnu, framsýnu námslánakerfi á Íslandi. Það er sérstaklega sorglegt í ljósi þess að það eru, eins og ég rakti í upphafi máls míns, vægast sagt mjög sterkar vísbendingar um að það sé þverpólitísk samstaða hérna inni um að innleiða kerfi sem er sambland námslána og styrkja. Það hefði verið svo innilega hægt í þessu máli með þverpólitísku samtali eins og við gerum í öðrum málum að koma inn í þingið með námslánafrumvarp sem sátt væri um.

En því miður er það ekki. Og ég vona að ég hafi rakið það að ástæðurnar fyrir því að við í minni hlutanum getum á engan hátt fellt okkur við þetta frumvarp eru ekki byggðar á pólitískri refskák, þær eru byggðar á algeru grundvallaratriði í pólitík, grundvallarmun á flokkunum í því hvernig eigi að skilja hugtakið jöfnuð, skilja hugtakið félagslegt réttlæti, hverjum á að hjálpa, hverjum á ekki endilega að hjálpa og þar fram eftir götunum. Gallarnir á frumvarpinu liggja algerlega í grundvallaratriðunum. Því er ekki hægt að samþykkja það og því fer það ekkert lengra. En ég vona að ný ríkisstjórn muni efna til samráðs um nýtt námslánakerfi sem þörf er á og við reynum þá að horfa jákvætt á hlutina og nota það sem veganesti sem hefur farið fram í allsherjar- og menntamálanefnd á undanförnum vikum því að vissulega hefur það verið gagnlegt og upplýsandi.