145. löggjafarþing — 170. fundur,  12. okt. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Í fyrsta lagi með að við höfum ekki talað um hvernig megi bæta frumvarpið. Gagnrýni okkar snýr algerlega að grundvallaratriðum, sem ég hef svo sem skilning á að meiri hlutinn vilji ekki breyta. Það er m.a. þetta, að verið sé að hækka vexti á námslánum og þar með auka kostnað þeirra sem þurfa þau til að reyna að fjármagna námsstyrkjakerfið. Því þarf að breyta. Við spurðum líka fyrir nefndinni: Var t.d. hugleitt að afnema ekki tekjutenginguna af afborgununum? Breyta henni hugsanlega eitthvað, en reyna að hafa hana ofan á styrkjakerfið? Það hefði kannski verið hægt að koma til móts við okkur í minni hlutanum með því. Líka að lækka vextina á þessum námslánum og setja þar með inn meiri pening. En ekki var orðið við því. Það var eitt og annað sem varðar grundvallaratriði í þessu máli sem hefði mögulega verið hægt að breyta en var ekki vilji til.

Varðandi spurninguna: Er verið að setja 2 milljarða þarna inn ef allir nýta sér námsstyrkinn? Það verður að setja fyrirvara við þá fullyrðingu að 2 milljarðar verði settir inn, vegna þess að í forsendum frumvarpsins, eins og ég rakti held ég nokkuð skilmerkilega í ræðu minni, er gert ráð fyrir að fólk muni ekki taka full námslán. Að veigamiklir hópar í námslánakerfinu, hérna eru hópar sem þurfa mikið til að framfleyta sér eins og einstæðir foreldrar, muni ekki taka full námslán. Gert er ráð fyrir því í forsendum frumvarpsins að stúdentar almennt muni ekki taka full námslán af því að þeir fá þennan styrk og vegna þess að þeir verði skyndilega reiðubúnir að láta bætur koma til frádráttar námslánum. Krónu fyrir krónu. Þetta er órökstutt. Ekki var farið yfir það af hverju þetta ætti að gerast. Því er ekki hægt að fullyrða á nokkurn hátt hver heildarkostnaðurinn við þetta kerfi allt saman verður.