145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

orð þingmanns í umræðu.

[10:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við stjórn fundarins. Ég hefði talið æskilegt að hér hefði verið byrjað á liðnum um störf þingsins. Ástæðan fyrir því að ég hefði viljað það er að undir þeim lið féllu í gær eftirfarandi ummæli hjá hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur, með leyfi forseta:

„Þarna var verið að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta kæmu betur út.“

Í almennri pólitískri umræðu eru gjarnan stór orð látin falla í garð þeirra sem eru pólitískir andstæðingar. En hér liggur það undir að nafngreindur einstaklingur, dr. Hrafnkell Kárason, vann greininguna sem lögð var til grundvallar af hálfu ráðuneytisins. Ég kveinka mér ekki persónulega undan því að sitja undir slíkum brigslmælum en ég vil ekki að það standi í bókum þingsins að þessum nafngreinda manni, doktor frá MIT, sem vann þessa greiningu, grundvallaða á opinberum gögnum, sé brigslað um að hafa með störfum sínum verið að blekkja þingið.

Ég vildi gera grein fyrir þessu og hefði gjarnan viljað ræða það betur undir liðnum um störf þingsins.

Svo ég vitni aftur í hv. þingmann sagði hún að þessir útreikningar væru allir „bundnir við einhverja galdra“. Það er ekki þannig, virðulegi forseti. Þetta er það sem í almennu tali er kallað stærðfræði og Hrafnkell Kárason, doktor frá MIT, er einmitt góður í því fagi. (Forseti hringir.) Sú niðurstaða að 85% stúdenta kæmu betur út var einungis byggð á opinberum gögnum, síðan bætist við umræða um samspil við önnur kerfi sem gera það að verkum að m.a.s. hærra hlutfall kæmi betur út. En ég vildi ekki að í bókum þingsins stæði sú ásökun á þennan nafngreinda mann að hann hefði vísvitandi farið fram með blekkingum gegn þingi og þjóð.