145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

alþjóðasamþykkt um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum.

895. mál
[10:18]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stuðning við alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks á átakasvæðum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jörund Valtýsson frá utanríkisráðuneytinu. Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi skori á hlutaðeigandi aðila að virða undantekningarlaust alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks, heilbrigðisþjónustu og neyðaraðstoðar á átakasvæðum. Þá er lagt til að Alþingi fordæmi árásir á sjúkrahús og sjúkraskýli á átakasvæðum, lýsi stuðningi við alþjóðalög og alþjóðasamþykktir gegn slíku athæfi og feli ríkisstjórninni að bera fram andmæli við þess háttar brotum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er vísað til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2286 (2016) sem samþykkt var í maí á þessu ári og Ísland var meðflutningsaðili að. Fram kemur að í ályktuninni fordæmi öryggisráðið árásir á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum, sjúkrahús, sjúkraskýli og aðra aðstöðu sem nýtt er til hjálpar særðum og sjúkum þar sem stríð geisar, með vísan til Genfarsamninganna og annarra alþjóðasamninga um skuldbindingar ríkja sem eiga í vopnuðum átökum, mannréttindasamninga og mannúðarlaga. Í greinargerð segir að tilefni ályktunarinnar hafi verið að árásir á heilbrigðisstarfsfólk og bækistöðvar þess á átakasvæðum hafa færst mjög í vöxt undanfarin ár í stríðshrjáðum löndum, m.a. Afganistan, Suður-Súdan, Sýrlandi, Jemen, Úkraínu og Mið-Afríkulýðveldinu.

Nefndin telur ljóst að auknar árásir á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum hafa orðið tilefni umræðu, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um nauðsyn þess að alþjóðasamfélagið bregðist við og hvetji til þess að virt verði þörf á læknishjálp á stríðshrjáðum svæðum í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög. Þegar ekki er hægt að gera ráð fyrir öryggi heilbrigðisstarfsfólks og veitenda neyðaraðstoðar á stríðshrjáðum svæðum, þar á meðal á sjúkrahúsum, er hætta á að fjölþjóðasamtök sem sinna hjálparstörfum og neyðaraðstoð neyðist til að draga úr starfsemi sinni. Það getur haft þær afleiðingar að óbreyttir borgarar í sárri neyð geti ekki fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þegar sjúkrahús og neyðarskýli eru ekki lengur örugg er jafnframt hætta á að særðir og sjúkir sæki síður aðstoð vegna yfirvofandi ógnar auk þess sem árásir á sjúkrahús geta haft slæm langvarandi áhrif á þróun heilbrigðiskerfis í stríðshrjáðu ríki. Brýnt er því að draga úr þjáningum sjúkra í stríði og tryggja öryggi þeirra og heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir neyðar- og mannúðarstarfi með hlutleysi og fagmennsku að leiðarljósi. Nefndin telur jafnframt brýnt að fordæmdar verði árásir á veitendur neyðaraðstoðar enda nauðsynlegt að tillagan nái einnig til þeirra sem veita slíka aðstoð. Leggur nefndin til breytingu því til samræmis.

Genfarsáttmálunum er ætlað að tryggja vernd og réttindi þeirra sem ekki eru þátttakendur í átökum, m.a. óbreyttra borgara, hermanna sem hafa særst eða gefist upp og lækna og hjúkrunarfólks sem sinnir heilbrigðisþjónustu og líknarstarfi á átakasvæðum. Árásir á heilbrigðisstarfsfólk, sjúkrahús eða aðrar bækistöðvar þar sem hlúð er að særðum og sjúkum geta því verið brot á alþjóðlegum mannúðarrétti og skoðast sem stríðsglæpir.

Í greinargerð kemur fram að markmið þingsályktunartillögunnar er að stuðla að því að rödd Íslands á alþjóðavettvangi verði nýtt til að andmæla löglausum árásum á heilbrigðisstarfsfólk á átakasvæðum og lýsa stuðningi við alþjóðasamþykktir sem vernda það og starf þess í þágu stríðshrjáðs fólks hvarvetna í veröldinni. Nefndin telur mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir því að reglur og venjur alþjóðlegs mannúðarréttar verði virtar og að unnið sé að vernd og eflingu mannréttinda á átakasvæðum.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „og sjúkraskýli“ í tillögugreininni komi: sjúkraskýli og veitendur neyðaraðstoðar.

Ég ætla að leyfa mér að lesa þingsályktunartillöguna eins og hún verður eftir breytingu, hún er stutt:

Alþingi skorar á alla hlutaðeigandi aðila að virða undantekningarlaust alþjóðasamþykktir um vernd heilbrigðisstarfsfólks, heilbrigðisþjónustu og neyðaraðstoðar á átakasvæðum. Jafnframt fordæmir Alþingi árásir á sjúkrahús, sjúkraskýli og veitendur neyðaraðstoðar á átakasvæðum, lýsir stuðningi við alþjóðalög og alþjóðasamþykktir gegn slíku athæfi og felur ríkisstjórninni að bera fram andmæli við þess háttar brotum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Undir þetta nefndarálit rita sá er hér stendur, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, og hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir, Óli Björn Kárason, Óttarr Proppé, Þórunn Egilsdóttir og Karl Garðarsson. Hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, Frosti Sigurjónsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu áliti.

Virðulegi forseti. Ég hef þjónað þingræði í þrjú ár. Ég hef hins vegar hugsað um þingræði miklu lengur, ég hef hugsað um það í 57 ár, og tel að þingræði og lýðræði sé besta stjórnarfyrirkomulagið. Ég er stoltur af því að hafa þjónað hér í þrjú og hálft ár. Ég hef reynt að nota þekkingu mína og reynslu í störfum. Ég hef nálgast störfin af auðmýkt, viti og æðruleysi. Stundum við þingsetningu sárnar mér að þingræðið skuli vernda mig með járngirðingum. Mér dettur þá helst í hug að þetta sé næsta skref fyrir neðan það að þingræði verði verndað með skriðdrekum en það er stundum svo að þingræði er ógnað með skriðdrekum. Við vitum ekki alltaf í hvaða átt skriðdrekarnir snúa.

Ég ætla líka að segja hér og nú að þinghúsið er listaverk þar sem fegurðin ein ræður. Umgengni starfsfólks um þinghúsið er með mikilli virðingu og ég þakka starfsfólki fyrir aðstoð og umhyggju. Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Ég veit ekki hvort ég fæ annað tækifæri og þakka því kjósendum fyrir tækifærið sem forsjónin veitti mér. Þegar ég geng hér út við lok þingfundar geri ég það í auðmýkt og lotningu. Takk fyrir.