145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

um fundarstjórn.

[10:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hingað og leiðrétta þann hvimleiða misskilning sem kom fram í ræðustól hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi það að ég hefði nafngreint einstaklinga sem hefðu gert ákveðnar rannsóknir í þágu mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi LÍN-frumvarpið.

Það er ekki rétt, þetta er nokkuð sem ég hef ekki gert. Ég hef ekki nafngreint fólk. Ég hef hins vegar dregið í efa þá útreikninga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lýsti yfir sjálft og var m.a.s. í fylgiskjali með frumvarpinu. Þegar þessi góði maður kom á fund nefndarinnar kom í ljós á hvaða forsendum þessir útreikningar voru byggðir. Það er nákvæmlega það sem gagnrýni okkar í minni hluta nefndarinnar byggist á, að þarna séu blekkingar, þarna sé verið að slá ryki í augu kjósenda, þarna sé verið að leika sér með tölur og forsendur. Það kom skýrt fram að þetta væri gert að beiðni hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, að leika sér með tölur, bara þannig að því sé haldið til haga.

Ég hef ekki sakað neinn um neitt, ég hef ekki nafngreint neinn nema hugsanlega mennta- og menningarmálaráðherra (Forseti hringir.) sem er sá eini sem ber ábyrgð á þessum málaflokki. Og hann brást.