145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

um fundarstjórn.

[10:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Í þeim ágreiningi sem hér er kominn upp vil ég koma hér sem vitni í málinu. Ég hef eins og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir gagnrýnt mjög og lýst andstöðu við námslánafrumvarpið og m.a. haldið því fram eins og hún að ráðuneytið hafi ekki sagt rétt frá þegar það fullyrti að t.d. um 90% stúdenta mundu greiða minna í afborganir af námslánum í þessu nýja kerfi. Það tók okkur í minni hlutanum smátíma að sjá í gegnum þennan blekkingaleik sem við höfum kallað svo. Þarna var í öllu falli aðeins hálf saga sögð. Það var einmitt á fundi með umræddum reiknimeistara sem er með doktorspróf frá MIT eins og kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem þetta laukst upp fyrir okkur, vegna þess að sá fundur var mjög upplýsandi þar sem viðkomandi svaraði mjög skilmerkilega öllum okkar spurningum og sýndi einmitt hæfni (Forseti hringir.) sína í hvívetna í þessu efni. Þannig að gagnrýni hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur og gagnrýni mín á blekkingaleikinn er engan veginn gagnrýni á umræddan aðila. Það er algjör misskilningur.