145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

804. mál
[10:34]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil gera grein fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og borist umsagnir frá utanríkisráðuneyti, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri, Veðurstofu Íslands, Vitvélastofnun Íslands, dr. Kára Helgasyni og dr. Jóni Emil Guðmundssyni, og Sævari Helga Bragasyni.

Með þingsályktunartillögunni er leitað eftir því að Alþingi feli utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Geimvísindastofnun Evrópu (e. European Space Agency, ESA) var sett á laggirnar árið 1975 og eru aðildarríki hennar nú 22 talsins. Öll Norðurlöndin eru aðilar að ESA að Íslandi frátöldu. Þá eru tíu ríki í aðildarferli að stofnuninni en slíkt ferli tekur nokkur ár.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að markmið Geimvísindastofnunarinnar sé að vera samstarfsvettvangur Evrópuríkja í geim- og tæknirannsóknum. Helstu verkefni stofnunarinnar lúta m.a. að framkvæmd og útfærslu langtímastefnu í geimvísindum og tillögum um sameiginleg markmið aðildarríkjanna í geimvísindum. Stofnunin sér einnig um samræmingu evrópsku geimferðaáætlunarinnar og áætlana aðildarríkjanna, einkum er varðar þróun gervihnattabúnaðar. Starf Geimvísindastofnunarinnar snýst þó ekki síður um rannsóknir á sviðum sem varða jörðina, svo sem veðurfræði, líffræði og jarðfræði. Einnig er lögð áhersla á rannsóknir á sviði eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, tölvuvísinda o.s.frv.

Í greinargerðinni er lögð áhersla á að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu mundi skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri og gera háskólamenntuðu fólki auðveldara að nýta sérþekkingu sína hérlendis, sjálfu sér og þjóðinni allri til hagsbóta. Bent er á að brottflutningur menntaðs fólks úr landi er verulegur og að aðild Íslands að Geimvísindastofnunninni væri þáttur í að efla atvinnumöguleika á sviði hvers konar tækni og vísinda heima fyrir sem skortur hefur verið á. Samkvæmt greinargerðinni er líklegt að helstu verkefnin sem bærust til Íslands við aðild yrðu fyrst um sinn hugbúnaðarverkefni.

Nefndin telur að aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu yrði til að efla vísindastarf og hátækniiðnað á Íslandi og bendir á að íslenskir vísindamenn nota nú þegar gögn frá Geimvísindastofnun Evrópu, m.a. við rannsóknir á jarðhræringum og veðurfari. Ísland stendur framarlega í rannsóknum á segulsviði jarðar og hingað til lands koma vísindamenn á vegum stofnunarinnar til þess að prófa tæki sem eru t.d. notuð í gervihnetti. Með aðild gæti Ísland notfært sér í auknum mæli þau tæki sem stofnunin býr yfir og haft áhrif á rannsóknastarf hennar, svo sem hvernig ferðir gervitungla eru skipulagðar. Slík áhrif kæmu íslensku vísinda- og rannsóknastarfi mjög til góða, svo sem við rannsóknir á landrisi og þróun jökla, veðurfari, hafís og hitabreytingum sem geta gert viðvart um eldgos.

Umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð tillögunnar og tóku m.a. undir áherslur nefndarinnar um að aðild að Geimvísindastofnuninni mundi stuðla að fjölbreyttari atvinnumöguleikum hérlendis og eflingu vísindasamstarfs við aðrar þjóðir. Fram kom að stærsti rannsóknaflokkur stofnunarinnar, með 31% fjárframlaga, snýr að athugunum á jörðinni og bent var á hagsmuni Íslendinga af rannsóknum á fiskimiðum, norðurslóðum og jarðhræringum svo og vöktun lofthjúps og veðurkerfa.

Nefndin greinir kostnað af þátttöku í Geimvísindastofnuninni og bendir á að aðildarríkjum sé sameiginlega skylt að standa undir um þriðjungi af starfsemi stofnunarinnar en þar fyrir utan eru valfrjáls verkefni fjármögnuð af aðildarríkjum. Hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett í hvaða valfrjálsu verkefnum það tekur þátt og því eru fjárframlög misjöfn eftir því hvaða verkefnum hvert ríki ákveður að taka þátt í. Í staðinn fjárfestir stofnunin í aðildarríkjum með úthlutun verkefna sem efla rannsóknir og nýsköpun og miðast þá fjárhæðin við fjárframlag frá viðkomandi ríki. Í fylgiskjali með tillögunni er að finna mat á mögulegum fjárframlögum til stofnunarinnar miðað við landsframleiðslu Íslands árið 2015 borið saman við nokkur aðildarríki og það hlutfall landsframleiðslu sem þau ríki lögðu til sama ár. Það færi eftir umfangi þátttöku Íslands í fyrrnefndum valfrjálsum verkefnum. Miðað við nær enga þátttöku í slíkum verkefnum yrði framlag Íslands 60 millj. kr. Miðað við lægsta gildi þjóða með sambærilega þjóðarframleiðslu á mann og Ísland yrði framlagið 162 millj. kr. og miðað við miðgildi allra aðildarþjóða yrði framlagið 275 millj. kr. Þá er undirstrikað að Geimvísindastofnunin hefur skuldbundið sig til að fjárfesta í aðildarlöndunum fyrir sem nemur að lágmarki 96% framlags þeirra. Í umsögn Háskólans í Reykjavík kemur þannig fram að fyrirkomulag samstarfsins um Geimvísindastofnun Evrópu tryggir að framlag íslands mun skila sér í samsvarandi fjármögnun verkefna á Íslandi. Í umsögn dr. Kára Helgasonar og dr. Jóns Emils Guðmundssonar kemur fram að framlag Íslands yrði mun lægra í umsóknarferlinu, eða fyrstu fimm til tíu árin, og fullyrt er að Ísland geti gerst aðili að Geimvísindastofnunni með hófstilltum framlögum fyrst um sinn og 80–200 millj. kr. á ári seinna meir ef óskað verður eftir fullri aðild. Veðurstofa Íslands lagði í umsögn sinni áherslu á að ef Ísland yrði aðili að Geimvísindastofnuninni væri mikilvægt að tryggja að nýjar fjárveitingar fylgdu til þeirra stofnana sem halda utan um þá starfsemi sem aðild fylgir.

Í umsögn utanríkisráðuneytisins kemur fram að fyrir réttum áratug var settur á fót starfshópur til að kanna fýsileika aðildar eða samstarfs Íslands við Geimvísindastofnun Evrópu. Ætlunin var að kanna hvort aðild væri tímabær og hvort aðild eða samstarf við stofnunina kæmi til með að stuðla að örari tækniþróun og fjölgun viðskiptatækifæra á sviði hátækni hér á landi. Enn fremur skyldi kannað hvort aðild eða samstarf kæmi til með að styrkja stöðu Íslands á öðrum sviðum, svo sem á sviði fjarskipta, umhverfis, öryggismála og leiðsögumála. Starfshópurinn lauk ekki störfum. Í umsögninni segir að nokkur óvissa sé um mögulegt fjárframlag til Geimvísindastofnunarinnar og jafnframt um þjóðréttarlegar skuldbindingar ef af aðild verður. Ráðuneytið telur þó að aðild eða samstarf við stofnunina geti verið áhugaverður kostur í utanríkispólitísku tilliti og að ekki sé óeðlilegt að kanna nánar hvort og þá með hvaða hætti Ísland gæti átt samleið með stofnuninni.

Utanríkisnefnd telur að aðild að Geimvísindastofnunni feli í sér tækifæri til þess að efla menntun, rannsóknir og vísindi á Íslandi og skapa um leið atvinnutækifæri fyrir háskólamenntað fólk sem í auknum mæli hefur sótt út fyrir landsteinana til að fá störf við hæfi. Hvað fjármögnun varðar leggur nefndin áherslu á að fjárframlög til Geimvísindastofnunarinnar skili sér að mestu leyti aftur til aðildarríkjanna og að framlög séu að miklu leyti valkvæð eftir því í hvaða verkefnum ákveðið er að taka þátt í. Nefndin tekur þó undir að ef til aðildar kemur skuli tryggja að þær stofnanir innan lands sem halda utan um samstarfið við Geimvísindastofnunina hljóti viðhlítandi fjárveitingar til þess. Nefndin tekur undir sjónarmið utanríkisráðuneytisins um að kanna nánar kosti aðildar Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu. Nefndin telur mikilvægt að stofnunin starfi einungis í friðsamlegum tilgangi eins og fram kemur í stofnsáttmála hennar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu að undangenginni nánari skoðun á skuldbindingum samfara aðild.

Undir þetta álit rita sá sem hér stendur, Óttarr Proppé framsögumaður, og hv. þingmenn Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Óli Björn Kárason, Karl Garðarsson, Þórunn Egilsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur að tillagan verði samþykkt með breytingunni sem hér var kynnt.