145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[10:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja þetta prýðilega mál. Ég er að flestu leyti sammála því. Ég tel að það sé vel við hæfi að Alþingi samþykki þingsályktun af þessu tagi. Hún er í tilefni af því að verið er að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Mig langar þó, herra forseti, að leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki hefði verið við hæfi af þessu tilefni, í ljósi þeirra umræðna sem hafa orðið á síðustu árum um stjórnarskrá Íslands, að Alþingi samþykkti með þessari tillögu einhvers konar hvatningu til sjálfs sín, lýsti markmiði sínu um að verða fyrir þann tíma sem hér er nefndur búið að ljúka gerð nýrrar stjórnarskrár. Við erum að tala hér um tvö ár. Allir stjórnmálaflokkarnir sem sæti eiga á Alþingi og flestir þeirra sem bjóða fram til Alþingis hafa haft mjög skýrar skoðanir á stjórnarskránni. Sömuleiðis held ég að það sé sammæli mjög margra stjórnmálaflokka með hvaða hætti fara eigi höndum um gerð og undirbúning nýrrar stjórnarskrár. Mikil hefur vinna nú þegar farið fram við þann undirbúning. Ég hefði talið að það væri vel við hæfi að Alþingi mundi samþykkja fyrirheit um að hafa lokið gerð nýrrar stjórnarskrár eigi síðar en þegar kemur að þessu afmæli.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hans til þess.