145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[11:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög framkominni þingsályktunartillögu að halda veglega upp á 100 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar. Þetta er dagur sem er svolítið farinn að falla í gleymsku, ekki síst hjá unga fólkinu. Ég tel það mjög mikils virði að við lyftum þessum atburði aftur á hærri stall og þess vegna er mjög vel við hæfi, eins og getið er um í þingsályktunartillögunni, að minnast hans með ýmsum hætti hvað varðar menningu þjóðarinnar.

Sú sem hér stendur er formaður Þingvallanefndar. Þingvallanefnd hefur á þessu kjörtímabili unnið mjög að stefnumótun þjóðgarðsins. Vil ég þar t.d. nefna að í Þingvallabænum var á vordögum eða í byrjun júní árið 2014 haldinn ágætisfundur með Þingvallanefnd og forsætisnefnd þingsins. Kom þar fram mikill samhljómur með þeim þingmönnum sem þar voru staddir og hefur verið unnið áfram varðandi á stefnumótun sem þar var sett fram í grófum drögum. Hún var sett fram í einum fimm eða sex tillögum. Ég held að gerst hafi nokkur undur á þessum fundi okkar á júnídögum 2014.

Eitt af því sem farið verður í er stækkun á fræðslumiðstöðinni á Hakinu sem unnið hefur verið að hörðum höndum nú á síðustu árum. Er nú svo komið að verið er að taka grunninn að þeirri stækkun. Fræðslumiðstöðin þar er um 200 fermetrar, en við erum að bæta við um 800 fermetrum, ekki síst til þess að geta gert þar sýningarsal undir veglega sýningu um Þingvelli, um menninguna, um náttúrufarið. Það passar því einkar vel að við verðum búin að gera viðbyggingu til þess að opna þar veglega sýningu sem unnið hefur verið að og höfum við fengið fyrirtækið Gagarín til þess að hanna hana.

Þá langar mig að geta þess sem fáir virðast vita um, en saga Þingvalla er náttúrlega svo samofin sögu okkar, íslensku þjóðarinnar, en hún er líka svo margbrotin. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því að Íslendingar voru fyrstir þjóða til að taka sér sumarfrí eða orlof. Þeir tóku sér frí í tvær til þrjár vikur á sumri og þeystu til Þingvalla. Þar var eiginlega settur upp kaupstaður í anda kaupstaða á miðöldum með mjög margvíslegri starfsemi, eins og góð miðaldaþorp voru. Þar voru handverksmenn. Þar voru íþróttir. Þar var dómstóll. Þar voru bruggarar og þar voru skemmtiatriði. Þar var líka hjónamarkaður o.s.frv. Það er alveg einstök mynd sem við getum dregið upp af lífinu á Þingvöllum fyrr á dögum. Þessar sumarbúðir stóðu í nokkrar aldir, sem voru eins og ágætiskaupstaður, af því að á þeim tíma var hvergi kaupstaður til á Íslandi.

Saga Þingvalla er ótrúlega merkileg þegar maður fer að kynna sér hana. Af því að ég nefndi náttúrufar þá eru það síður merkilegt, bæði vatnið sem og öll náttúran þarna.

Ég fagna þessari tillögu sérstaklega sem formaður Þingvallanefndar. En ég er náttúrlega líka mjög hlynnt öðrum tillögum sem eru í þessari ágætu þingsályktunartillögu.