145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

900. mál
[11:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason flutti hér sína sýn á söguna og hvenær endanlega var í gadda slegið að við værum fullvalda og sjálfstæð þjóð. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við þær skýringar, þær eru hans, ég er þeim ekki að fullu leyti sammála. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það hafi verið menn sem tengdust þessari stofnun sem við báðir sitjum á sem lyftu stærstum grettistökum. Hvað um það.

Ég hef áður lýst því hér að ég er hlynntur því að tillaga af þessu tagi verði samþykkt. Við erum að minnast hér gríðarlegra mikils áfanga í sögu Íslands árið 1918, það var auðvitað 1904 sem segja má að raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi endanlega lokið og þá hafi þingræði verið innleitt hér með nútímalegum skilningi þess orðs. Eftir 1918 höfðum við sönnu sama arfakóng og þeirri dönsku, en það lá algjörlega klárt að jafnvel þó að utanríkismál væru þó enn að forminu til á þeirra könnu lágu allar ákvarðanir hér. Það er mjög mikilvægt að við minnumst þess að það skiptir máli fyrir litla þjóð að hún varði sína sögulegu leið með einhvers konar atburðum eins og þessum.

Að því sögðu tel ég að það hefði verið hægt að hugsa þessa tillögu betur. Það er ekkert í henni sem ég er beinlínis á móti. En ég hef þegar lýst þeirri afstöðu minni að þegar við erum að minnast sögulegra atburða sem varða fullveldið, sem varða tilvist okkar sem þjóðar, þingræðisins með vissum hætti, þá hefðum við líka átt að beina sjónum að því að sem Alþingi hefur verið mjög upptekið af síðustu ár, sem er stjórnarskráin. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki langt á milli manna í þeim efnum og flokka. Ég hlustaði auðvitað grannt og hef fullan skilning á þeim viðhorfum sem hæstv. forsætisráðherra flutti hér. Hann var heldur úrkula vonar um að möguleiki væri á að ná einhverju landi í því efni. Ég leyfi mér að fullyrða að sá skilningur ekki réttur. Ég leyfi mér líka að fullyrða að nánd kosninga kunni að hafa bjagað mönnum sýn í því efni. Í öllu falli er alveg ljóst að allir flokkar hér á Alþingi hafa lýst ákveðnum viðhorfum sem taka til þeirra stærstu og mikilvægustu þátta sem m.a. mér og hæstv. forsætisráðherra er hvað umhugaðst um. Ég er honum algjörlega sammála um tvo af þeim þremur köflum sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, án þess að ég ætlaði að fara í nokkra umræðu um það. Í einu efni er ég honum ósammála eða vildi hafa málin öðruvísi.

Það gleður mig auðvitað sem gamlan Þingvallanefndarmann sem er umhugað mjög um náttúru og sögu Íslands að það á sérstaklega af þessu tilefni að lyfta Þingvöllum, ekki bara að hafa þar hátíðarfund, heldur líka hafa þar sýningu um sögu og náttúrufar Þingvalla og sömuleiðis að ljúka stefnumótun um framtíðarfyrirkomulag svæðisins. Þingið hefur látið sig þau mál varða og þau hafa alltaf verið, a.m.k. frá því að ég steig inn á þing, verið í góðum höndum. Þau hafa verið í sérstaklega góðum höndum hjá hæstv. umhverfisráðherra sem hefur haft dygga og skelegga forustu í þeim efnum, í stórum greinum, en líka í ýmsum smærri sem hún veit að mér þykir ákaflega vænt um.

Af því tilefni hefði ég talið að fyrst Þingvellir eiga að verða partur af þessum minningaratburði hefðum við átt að ganga lengra en það að eitt að hafa sýningu um sögu og náttúrufar. Hvort tveggja er mjög mikilvægt og hæstv. umhverfisráðherra sagði réttilega að það mætti vel jafna að mikilvægi náttúrufari Þingvalla og Þingvallavatns, sem er einstakt, við söguna sjálfa. Þegar maður horfir til baka og skoðar með hvaða hætti við höfum reynt að kynna það gagnvart okkar eigin þjóð blasir við að í gegnum tímann hafa einstaka fræðimenn skrifað mjög fræðilegar bækur um Þingvelli sem aldrei hafa náð neinum sérstökum aðgangi að hjörtum almennings í landinu. Skáld eins og Björn Th. Björnsson hafa vissulega skrifað mjög merkar skáldsögur sem byggjast á lífi fólksins sem þarna vann. Ljósmyndarar hafa birt myndir bæði af náttúrunni sjálfri og hið opinbera haft frumkvæði að því að birta bækur með frægum málverkum sem máluð hafa verið með Þingvelli sem fyrirmynd. En aldrei hefur verið skrifuð bók sem tekur bæði á náttúrufari og sögu Þingvalla með einföldum hætti þannig að hún eigi greiða leið til alþýðu manna, bók eða rit sem hægt væri að nota t.d. gagnvart uppvaxandi kynslóðum. Eina ritið sem ég minnist af þessu tagi er auðvitað hin stórkostlega litla alþýðubók Björns Þorsteinssonar prófessors sem tekur á sögu Þingvalla með alveg sérstaklega einföldum og skemmtilegum hætti.

Ég hefði talið að af þessu tilefni ætti þingið einfaldlega að ákveða að slík bók yrði rituð. Ég hef sjálfur áður lagt óformlega fram þá hugmynd að einum af fyrrverandi formönnum Þingvallanefndar, þ.e. Birni Bjarnasyni, sem er sjóður upplýsinga um þetta og tengslaríkur um allt það sem lýtur að náttúru og sögu Þingvalla, yrði t.d. falið slíkt verkefni. Ég vildi gjarnan hafa séð tillögu um það í þeirri ágætu tillögu sem hér er um að ræða.

Það næsta sem ég ætla aðeins að drepa á er að mér finnst vera heldur laust í reipum þegar hér er talað um það að stuðla eigi að því að skólar beini sjónum sínum að þeim merku tímamótum sem urðu með sambandslögunum árið 1918. Ég hefði líka talið fyrst menn ætla sér hér á annað borð að minnast þessara tímamóta að Alþingi átt að ákveða að verja fé til þess að gera námsefni um þetta. Saga fyrri parts síðustu aldar er af skornum skammti, sem var svo mikilvæg í mótun þjóðlífs okkar og mótun okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég hefði talið að Alþingi Íslendinga hefði vel getað bætt úr því með því að ákveða að skrifa rit um þessa tíma, hvernig þeir þróuðust, hverjir báru þá uppi, hverjar afleiðingarnar voru og hvernig við njótum þessarar baráttu í dag.

Í síðasta lagi er það auðvitað svo, eins og ríkulega er bent á í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að það eru stúdentar, fyrst og fremst stúdentar við Háskóla Íslands, sem haldið hafa minningu þessa dags á lofti. Ef ekki væri fyrir tilverknað þeirra og árleg hátíðahöld, árlega fundi þar sem þeir kjósa meira að segja á hverju hausti sérstakar nefndir til þess að annast viðkomandi viðburð, nefnd sem þykir slíkur vegsauki að hafa áhrif gagnvart, að um þetta eru stundum harðvítugustu kosningarnar í Háskóla Íslands. Ég hefði talið að frekar ætti að slá í gadda með hvaða hætti íslenskir stúdentar kæmu að þessum hátíðahöldum. Staðreyndin er einfaldlega sú að á sínum tíma og fyrir 1900 og fram að þessum kaflaskiptum voru það fyrst og fremst stúdentar heima og í Höfn sem höfðu veg og vanda af þessari baráttu og báru hana uppi.

Herra forseti. Um leið og ég lýsi því yfir að ég get ekki annað en greitt atkvæði með þessari tillögu tel ég að hana hefði mátt skoða dýpra og það hefði mátt marka fastari spor með henni en gert er. Mér finnst sem sagt að hún hafi verið sett saman á tiltölulega skömmum tíma og það hefði mátt gera þetta miklu betur úr garði með hætti sem hefði gagnast bæði hinum helga stað, hinum upprunalega þingstað Íslendinga, Þingvöllum, og sömuleiðis þeim kynslóðum sem eftir eiga að koma að því er varðar námsefni til þess að gera þessa atburði og sögu þeirra aðgengilegri fyrir þær. Sömuleiðis tel ég að í þessari tillögu hefði átt að gera hærra undir höfði þeim hópi sem sannarlega kom mest að sögu sjálfstæðisbaráttunnar sem voru íslenskir stúdentar, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan við Háskóla Íslands.