145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti eftir 2. umr. og í 3. umr. nú um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Þetta er frá meiri hluta velferðarnefndar en málinu var vísað til nefndar að nýju eftir 2. umr. Lífeyristökualdur á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera er ekki sá sami og starfsmenn hins opinbera geta almennt hafið töku ellilífeyris 65 ára en á almennum vinnumarkaði 67 ára. Meiri hluti nefndarmanna er sammála um að mikilvægt er að samræma lífeyrisréttindi innan lífeyrissjóðakerfisins áður en unnt er að hækka lífeyristökualdurinn innan almannatryggingakerfisins. Er því lagt til að ákvæði þess efnis í frumvarpinu verði fellt brott. Meiri hluti nefndarinnar ítrekar hins vegar þá framtíðarstefnu að lífeyrisaldur í landinu verði 70 ár sem gildi bæði innan lífeyrissjóðakerfisins og almannatryggingakerfisins. Er því mikilvægt að hækkun lífeyristökualdurs innan þessara kerfa haldist í hendur í ljósi þess mikilvæga samspils sem er á milli þessara kerfa. Að framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Við 2. gr.

a. Í stað orðanna „70 ára aldri“ í 1. efnismgr. komi: 67 ára aldri.

b. Í stað orðanna „18 til 70 ára aldurs“ tvívegis 1. efnismgr. komi: 16 til 67 ára aldurs.

c. 2. efnismgr. falli brott.

Halldóra Mogensen áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykk breytingartillögu þessari.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þm. og framsögumaður málsins, Elsa Lára Arnardóttir, formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara en að öðru leyti skrifa undir nefndarálitið hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.