145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Undir lok þessarar umræðu langar mig til að koma að örfáum punktum. Í fyrsta lagi var það mikið ánægjuefni að takast skyldi samstaða um að hækka lífeyristökualdurinn eða lífeyrisréttindaaldurinn í almannatryggingakerfinu með þeim hætti sem tókst við undirbúning þessa frumvarps. Það var öllum ljóst þegar sú ákvörðun var tekin að það héngi saman við þá vinnu sem var verið að vinna millum aðila vinnumarkaðarins um jöfnun lífeyrisréttinda. Um það hefur ekki verið nokkur ágreiningur. Eins og ég segi er ánægjulegt að það hafi gerst að menn hafi séð þörfina fyrir hækkun lífeyrisaldursins vegna þess að það skapar rými fyrir hækkun réttinda inn í kerfinu án þess að það muni til framtíðar íþyngja ríkissjóði um of, og hækkunin upp í 70 árin helst í hendur við það að fleiri og fleiri kynslóðir fá betri lífeyrisrétt á næstu áratugum inn á lífeyrisaldur.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða þar sem við erum að fella út úr frumvarpinu tillöguna um hækkun lífeyrisaldurs, vegna þess að ekki hefur tekist full samstaða um jöfnun lífeyrisréttinda, að taka það fram undir lok umræðunnar hversu alvarlegt þetta mál er orðið. Við erum nú þegar með í B-deild LSR langt yfir 500 milljarða skuldbindingu sem er ófjármögnuð, 500 milljarða skuldbindingu. Frá árinu 2025, 2026 u.þ.b. mun ríkissjóður þurfa að taka á sig um 25 milljarða á ári, það mun fara mjög hratt upp í um 20–25 milljarða á ári, og gjaldfæra hjá sér á hverju ári þar til síðasti aðilinn hefur tekið lífeyrisrétt út úr LSR, B-deild. Þetta eru gríðarlegar skuldbindingar og þær jukust verulega í síðustu kjarasamningagerð. Þetta er bara B-deildarvandinn. Svo er það A-deildin sem við ætluðum núna að fara að fullfjármagna samhliða jöfnun lífeyrisréttinda. Það tekst ekki um það samkomulag á þessu þingi, því miður. Það er mjög miður. En hér eru undir mjög alvarlegir hlutir sem munu setja vinnumarkaðinn í uppnám ef þingið bindur ekki um þá hluti sem allra fyrst. Það gengur ekki að allir þeir sem komi að þessu máli geri það með því að setja fram einhverja afarkosti og stilla öðrum upp við vegg. Það á aldrei að vera hægt að stilla þinginu upp við vegg og það getur þingið heldur ekki gert gagnvart einstökum aðilum. Það eina sem menn eiga að beina sjónum sínum að er að við séum ekki að lofa inn í framtíðina óútfylltum tékkum, að við tryggjum að lífeyrisréttindi á Íslandi séu jöfn, sjálfbær og fullfjármögnuð. Það er það sem verkefnið snýst um.

Við vitum að eitt helsta verkefni framtíðarinnar er að viðhalda stöðugleika, lágri verðbólgu og lægri vöxtum. Þetta er lykilaðgerð í því. Því verð ég að koma á framfæri undir lok umræðunnar um leið og ég fagna því hversu miklar réttarbætur fylgja þessu máli. Þó að 70 árin náist ekki í þessari umferð eru hér verulegar réttarbætur. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu máli fyrir framlag þeirra.