145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það dapurt á þessum síðasta degi þingsins þegar verið er að gera breytingar á almannatryggingakerfinu hvað varðar greiðslur til eldri borgara, þegar verið er að sameina þrjá bótaflokka í einn, þegar verið er að hækka bætur til þeirra aðila, að við getum ekki klárað þetta frumvarp í þokkalegri sátt, þótt hér séu einstaklingar sem telja að enn megi gera betur. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst það töluvert dapurt. En mig langar líka að benda á að hér tökum við eingöngu til þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum og lífeyris eldri borgara hjá almannatryggingakerfinu. Við erum ekki að fara inn í breytingar á þessu kerfi hvað varðar öryrkja, því miður, það er eftir. Vonandi lánast næsta þingi að gera það hið fyrsta.

Virðulegur forseti. Ég styð (Forseti hringir.) þetta frumvarp og vil taka fram (Forseti hringir.) að á þessu kjörtímabili, hvort heldur fólki líkar það (Forseti hringir.) betur eða verr, þá hafa bætur verið hækkaðar um tugi milljarða. (Forseti hringir.) En alltaf má sjálfsagt gera betur.