145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að hlusta á orð hv. þingmanna sem ekki tóku þátt í umræðunni við 2. umr. um breytingu á lögum um almannatryggingar og hafa því líklega ekki sett sig inn í röksemdafærslu okkar í minni hlutanum fyrir því af hverju við vildum fara aðra leið við hækkun á bótum í almannatryggingakerfinu en greiddu engu að síður í gær atkvæði gegn öllum breytingartillögum okkar. Við höfum alla vega greitt atkvæði með því sem þó er verið að gera hér, sem er auðvitað betra en ekki neitt.

En af því að spurt er hvenær rétti tíminn sé til að gera enn betur þá hefði hann einmitt verið núna. Hann er núna þegar gengur vel í samfélaginu. Þá er rétti tíminn til þess að gera vel við þá sem (Forseti hringir.) verra hafa það í samfélaginu, þá er tíminn til þess að gera virkilega vel við aldraða og örorkulífeyrisþega.