145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[11:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er umræðunni skipt í raun og veru milli tveggja hópa. Annars vegar eru það lífeyrisþegar, eldri borgarar, sem fá mjög miklar kjarabætur í þessum breytingum. Það er ekki annað að heyra í þingsal en að flestir séu sammála um það og það sé nokkurn veginn óumdeilt. Það er gert á grundvelli breytinga á lífeyriskerfinu, almannatryggingum, sem hafa verið unnar í samráði við þá. Þetta er gríðarlega mikið framfaraskref.

Hins vegar sitja stjórnarflokkarnir undir mikilli gagnrýni fyrir að gera ekki kerfisbreytingu fyrir öryrkjana. En við ákváðum einfaldlega, vegna þess að ekki tókst samstaða með öryrkjunum, að ryðjast ekki yfir þá með einhliða breytingum á því kerfi. Við höfum lagt áherslu á starfsgetumatið. Það verður að halda áfram þeirri vinnu, en fyrst ekki tókst samstaða um það er kerfið þeirra óbreytt.

Viti menn. Hér koma menn ítrekað upp og segja: Það er ömurlegt að það skuli vera hækkuð sérstaka framfærsluuppbótin. Hver er höfundur hennar? Hver er sá sem lagði mesta áherslu á að hækka sérstöku framfærsluuppbótina sem allir (Forseti hringir.) úr stjórnarandstöðunni gagnrýna? Góðir hálsar, það er Jóhanna Sigurðardóttir.