145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að sjá fjara undan því samkomulagi sem var búið að koma á fyrir nokkrum dögum eða vikum (Gripið fram í.) varðandi það að jafna lífeyrisgreiðslur á almenna markaðnum og opinbera markaðnum. Því miður fór það svo að það kom upp ákveðinn misskilningur, eða svo virðist vera, eða eitthvað slíkt. Báðir aðilar halda sínum rökum fram. Þetta er einn hluti af því máli þegar var loksins farið að sjá fyrir endann á því, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór yfir í atkvæðaskýringu, að hægt væri að dæla um 100 milljörðum inn í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, jafna lífeyristökualdurinn á almenna og opinbera markaðnum og hafa lífeyriskerfin eins til að flæði starfsfólks á milli kerfa væri mögulegt.

Virðulegi forseti. Samvisku minnar vegna get ég ekki greitt þessari tillögu atkvæði mitt og sit því hjá til að benda á það hversu mikið er í húfi og hversu stór mistök eru að eiga sér stað í þinglok.