145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég er stoltur yfir því að hafa átt lítinn þátt í því að þetta mál er komið svona langt. Ég er stoltur yfir því að hafa fengið að starfa með Pétri heitnum Blöndal og öllu því góða fólki sem var í nefnd um endurskoðun almannatrygginga og hafa fengið að leiða þá vinnu til lykta. Þetta mál eins og það liggur fyrir er ekki fullkomið. Það er samt stærsta skref sem hefur verið stigið í áratugi til þess að bæta almannatryggingakerfið. Við eigum öll hér inni, held ég, að vera ánægð með það og stolt yfir því að geta tekið þátt í því. Við erum ekki að stíga skrefið til fulls. Það verður gert innan skamms. Það voru náttúrlega vonbrigði að Öryrkjabandalag Íslands, eða stjórn þess, ákvað að draga sig frá þeirri vinnu sem var fyrir höndum með að semja frumvörp, en það var þeirra ákvörðun að einangra sig með þeim hætti og ekkert við því að segja. Þess vegna eru þeirra mál ekki leidd til lykta í dag eins og eldri borgara. En eins og ég segi er þetta stórt skref og við skulum vera stolt yfir því.