145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög þessari kerfisbreytingu og því hvernig við komum til móts við þá sem verst standa í þessu kerfi. Mér finnst dapurlegt að minni hlutinn skuli ekki styðja okkur í þessari vegferð og skil það ekki alveg, hvorki þau rök að hér hafi ekki verið nægilegt samstarf né heldur að ekki sé gott að setja 10 milljarða aukalega í þetta kerfi. Ég er hins vegar afar ánægður með það nefndarálit sem var hér, framhaldsnefndarálit, sem allir þingmenn sem sæti eiga í velferðarnefnd skrifa undir, um mikilvægi þess að við áttum okkur á þeim vanda sem hér hefur verið ræddur, m.a. af hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að á næstu tveimur mánuðum eftir kosningar bíður það þess þings og næstu ríkisstjórnar að taka á máli sem varðar jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera markaðarins annars vegar og að lengja lífeyristökualdurinn úr 67 í 70 ár. Ég fagna þeirri samstöðu sem hér er komin meðal allra flokka. Það er vísbending um að við getum tekið á þessu á næstu tveimur mánuðum fyrir árslok 2016. Það er ákaflega mikilvægt fyrir efnahagslíf Íslands.