145. löggjafarþing — 172. fundur,  13. okt. 2016.

kveðjuorð.

[12:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega því máli sem við erum að fara að samþykkja, að vekja athygli á 100 ára afmæli fullveldis og sjálfstæðis Íslendinga árið 2018. Við ætlum að reyna að gera það eins vel og við getum á Þingvöllum og opna þar glæsilega sýningu um sögu Þingvalla, náttúruna og menninguna. Það verður einkar ánægjulegt.

Það er annað sem er einkar ánægjulegt, það er að mega enda þingferilinn með því að fagna þessari tillögu sem og að hafa fengið það tækifæri á góðum aldri að vera á Alþingi Íslendinga, kynnast þeim margvíslegu störfum sem hér fara fram, sem og starfsfólki og öllu öðru. Það er eitt sem ég hefði gjarnan kosið, það er að hafa myndað meiri tengsl við þingmenn hér. Eitt af því sem gerist þegar maður verður ráðherra er að þá fjarlægist maður Alþingi nokkuð. Ég er það mikil félagsmálavera að ég hef saknað þess, ég hef saknað félagsskaparins hér á Alþingi, að geta ekki verið meira með hópnum. Ég get ekki sagt að ég voni að ég geti gert það síðar, þetta eru endalok, og ég vil þakka fyrir þann góða tíma sem ég hef fengið tækifæri til þess að vera hér með ykkur.