145. löggjafarþing — 172. fundur,  13. okt. 2016.

kveðjuorð.

[12:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur margt verið sagt og ritað um Alþingi. Mér hefur fundist í gegnum tíðina að birtingarmynd þessa ágæta vinnustaðar í fjölmiðlum hafi verið önnur en hún raunverulega er. Mín reynsla er sú að hér hef ég fengið tækifæri til að starfa með góðu fólki sem vill láta gott af sér leiða. Það beitir til þess ýmsum aðferðum en hver og einn einasti sem ég hef á undanförnum níu árum fengið tækifæri til að starfa með hefur gert sitt besta og ég vil þakka fyrir gott samstarf. Það hefur verið heiður að fá að stýra umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vil meina að við höfum náð gríðarlegum árangri í samvinnu á þessu kjörtímabili. Það hefur líka verið heiður að fá að vera formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og forseti Norðurlandaráðs. Ég tel okkur hafa náð að efla það góða starf og tel gríðarlega mikilvægt að því verði haldið hátt á lofti.

Að öðru leyti vil ég þakka forseta Alþingis og öllu því starfsfólki sem ég hef unnið með á undanförnum árum. Takk fyrir mig. Þetta er góður vinnustaður og ég óska ykkur öllum, kæru þingmenn og vinnufélagar, góðs gengis og einnig þeim sem munu taka að sér ný störf að loknum kosningum.