145. löggjafarþing — 172. fundur,  13. okt. 2016.

þingfrestun.

[13:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti Íslands gjörir kunnugt:

„Að ég, að tilskildu samþykki Alþingis, veiti forsætisráðherra umboð til þess að fresta fundum Alþingis, 145. löggjafarþings, frá 13. október 2016 eða síðar, ef nauðsyn krefur.

Gjört á Bessastöðum 12. október 2016.

Guðni Th. Jóhannesson.

_____________________

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Forsetabréf um frestun á fundum Alþingis.“

Samkvæmt þessu umboði og með vísan til samþykkis Alþingis lýsi ég því yfir að fundum Alþingis 145. löggjafarþings er frestað.

Virðulegi forseti. Alþingiskosningar munu fara fram 29. október, samanber forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis sem gefið var út 20. september sl. Nú þegar þingfundum er frestað og þingmenn og flokkar ganga til kosningabaráttu óbundnir af önnum löggjafarstarfsins vil ég nota tækifærið og þakka virðulegum forseta og hv. alþingismönnum og starfsmönnum þingsins fyrir afar gott samstarf þann tíma sem ég hef gegnt forsætisráðherraembætti. Ég tel að Alþingi hafi á þessum tíma sýnt að það er vel mögulegt að halda uppi góðri og málefnalegri umræðu og ná farsælli og í langflestum tilvikum sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu mála, enda þótt óhjákvæmilega og eðlilega skilji á milli flokka í einstökum málum, það er gangur lýðræðisins. Ég þakka persónulega fyrir að það hafi gengið svona vel að skila málum í gegnum þingið. Ég held að það hafi verið góður bragur á þessu haustþingi okkar sem og vorþingi.

Ég vil jafnframt þakka starfsfólki ráðuneyta, stofnana, fjölmiðla, félagasamtaka og öðrum sem láta málefni Alþingis sig varða fyrir hlut þess við afgreiðslu mála. Á einungis átta árum sem liðin eru frá hruni bankakerfisins hér hjá okkur hefur okkur í sameiningu tekist að lyfta íslensku samfélagi úr öldudal efnahagsþrenginga. Sterkt Alþingi, kraftmikil stjórnsýsla, en ekki síst úrræðasemi og þrautseigja almennings hefur gert þetta mögulegt. Framtíðin er okkar. Hún er full af möguleikum og óvenjulega björt. Við skulum halda til móts við hana með bjartsýni, skynsemi og fyrirhyggju að leiðarljósi.

Hv. alþingismenn. Ég óska ykkur og landsmönnum öllum gæfu og velfarnaðar.