146. löggjafarþing — þingsetningarfundur

ávarp aldursforseta.

[14:18]
Horfa

Aldursforseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég býð alla hv. alþingismenn, sem kjörnir voru í alþingiskosningunum 29. október 2016, velkomna til starfa á Alþingi. Sérstaklega býð ég velkomna nýkjörna alþingismenn sem ekki áttu hér fast sæti þegar Alþingi lauk störfum, en þeir eru nú fleiri en áður í sögu Alþingis, helmingur þingheims. Eins eru það ánægjuleg tímamót að konur eru nú fleiri en nokkru sinni við upphaf kjörtímabils, 30 talsins eða 47,6%, og fer vel á því, og má ekki seinna vera ári eftir að við minntumst aldarafmælis kosningarréttar kvenna. Ég vil láta í ljós þá von að störf þessa nýkjörna þings verði landi og þjóð til heilla.

Fyrir hönd okkar alþingismanna heilsa ég starfsfólki Alþingis og vænti þess að við megum eiga góða samvinnu við það eins og endranær.