146. löggjafarþing — 1. fundur,  6. des. 2016.

rannsókn kjörbréfa.

[16:00]
Horfa

Frsm. kjörbn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út 7. nóvember 2016 í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fóru fram 29. október sl.

Áður en þing kom saman hafði verið unnin nokkur undirbúningsvinna sem að komu fulltrúar frá öllum þingflokkum á Alþingi. Þeir undirbúningsfundir voru þrír og var þar farið yfir þau álitamál sem upp höfðu komið vegna kosninganna og vegna álitamála og ágreinings sem upp kom í yfirkjörstjórnum einstakra kjördæma.

Kjörbréfanefnd hefur fjallað um tvenns konar málefni, annars vegar ágreiningsatkvæði, sem eru allnokkur og koma til umfjöllunar hjá kjörbréfanefnd þar sem ekki hefur verið samstaða um afgreiðslu þeirra innan yfirkjörstjórna. Hins vegar fjallaði kjörbréfanefnd um nokkur kærumál sem borist hafa í kjölfar kosninganna. Um ágreiningsatkvæði er fjallað með allítarlegum hætti í nefndaráliti sem hér liggur fyrir og ætla ég ekki að rekja þau í smáatriðum. Ég vil bara geta þess að nokkuð hefur fjölgað þeim ágreiningsatkvæðum sem koma til meðferðar hjá kjörbréfanefnd frá kosningum til kosninga og eru nokkur atriði þess eðlis að kjörbréfanefnd telur ástæðu til þess að vekja athygli á þeim í nefndarálitinu með það fyrir augum að hægt verði að huga að þeim álitaefnum við endurskoðun kosningalaga sem hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Við fjöllum um það í álitinu með þeim hætti að þeir sem að endurskoðun kosningalaganna koma geti áttað sig á því hvaða atriði það eru sem á hefur reynt í þessu sambandi. Til þess að gera langa sögu stutta er rétt að geta þess að hvernig sem niðurstaða kjörbréfanefndar hefði verið í sambandi við mat á gildi þessara atkvæða hefði það ekki með neinum hætti haft áhrif á úrslit kosninganna, en álit kjörbréfanefndar skiptir hins vegar máli þegar horft er til fordæma þegar síðar kemur að því að meta sambærileg álitamál og þarna eru uppi.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem hér er greint í nefndarálitinu og ætla ekki að hafa um það fleiri orð.

Kosningakærurnar voru allnokkrar. Í einu tilviki var gerð athugasemd við framkvæmd kosningar af hálfu embættismanns og var það mat nefndarinnar í því tilviki að það varði ekki atriði sem leitt geti til ógildingar kosninganna. Ef athugasemdir eru við störf einstakra manna um framkvæmd kosninga er það ekki atriði sem kjörbréfanefnd tekur afstöðu til heldur getur eftir atvikum, ef um alvarleg mál er að ræða, leitt til lögreglurannsóknar og slíkra þátta þó að ekkert gefi tilefni til þess í þessu tilviki að því er mér sýnist.

Hin atriðin sem sneru að kærum vegna kosninganna varða fyrst og fremst atriði sem ekki heldur eiga undir kjörbréfanefnd. Gerð er athugasemd við úthlutun þingsæta eftir þeim reglum sem kosningalög og stjórnarskrá kveða á um, tvíþætt athugasemd, annars vegar varðandi misvægi atkvæða og hins vegar að í gildi sé svokölluð 5% regla um lágmark eða lágmarksþröskuld varðandi kjör stjórnmálasamtaka til þings. Þessar athugasemdir lúta að ákvæðum kosningalaga og stjórnarskrár og því kosningakerfi sem við búum við. Það er ekki hlutverk kjörbréfanefndar að leggja mat á þetta og niðurstaða kjörbréfanefndar var á þá leið að vilji menn fá fram breytingar hvað þetta varðar þá þurfi að breyta ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga en kæra til kjörbréfanefndar sé ekki leiðin til þess að hnekkja niðurstöðu kosninganna á þessum grundvelli.

Í lok nefndarálits okkar setjum við fram nokkurn texta þar sem við drögum saman þau álitamál sem við höfum verið að fjalla um. Við fjöllum um bæði þau ágreiningsmál sem upp hafa komið og vekjum athygli á í sambandi við endurskoðun kosningalaganna. Við vekjum jafnframt athygli á nauðsyn þess að leiðbeiningar og upplýsingar liggi fyrir með greiðum hætti þegar gengið er til kosninga og komum þeim athugasemdum á framfæri við innanríkisráðuneytið að því leyti sem framkvæmdina varðar.

Niðurstaða kjörbréfanefndar var á þá leið að þau kjörbréf sem landskjörstjórn hefur gefið út til aðalmanna og varamanna verði samþykkt í samræmi við þann nafnalista sem finna má í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Björn Leví Gunnarsson, Björt Ólafsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Teitur Björn Einarsson.