146. löggjafarþing — 1. fundur,  6. des. 2016.

ávarp forseta.

[16:19]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Hv. alþingismenn. Ég vil þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt mér, að kjósa mig, starfsaldursforseta ykkar, til embættis forseta Alþingis. Ég mun gera mitt besta til að vera þess trausts verður og vona að þó nokkur þingreynsla reynist mér hjálpleg í þeim efnum. Alþingi hefur nú störf við óhefðbundnar aðstæður eins og okkur er öllum kunnugt. Enn standa yfir stjórnarmyndunarviðræður eða -þreifingar. Því er engum meiri hluta og engum minni hluta á að skipa hér á þingi. Við þessar aðstæður er ábyrgð þingsins í heild, þingsins alls, óvenjuskýr. Um leið er ljóst að samstarfsvilji og góður samstarfsandi er enn mikilvægari en endranær. Forseti mun leitast við að leggja sitt af mörkum í þeim efnum með nánu samstarfi við formenn þingflokka og formenn stjórnmálaflokka ásamt því að forsætisnefnd sem hér verður kjörin á eftir taki þegar til starfa. Eins og jafnan reiðum við okkur á hið dugmikla og hæfa starfsfólk Alþingis sem við erum svo gæfusöm að hafa á að skipa.

Með þessum orðum ítreka ég þakkir mínar fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og vænti góðrar samvinnu við þingheim allan um þau mikilvægu verkefni sem okkar bíða á næstunni.