146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[13:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 sem er fyrsta mál 146. löggjafarþings, en frumvarpið er lagt fram við nokkuð óvanalegar aðstæður. Afráðið var síðastliðið vor að halda kosningar til Alþingis fyrr en gert hafði verið ráð fyrir og var þingi framlengt af þeim sökum til haustsins. Við eðlilegar aðstæður, ef svo mætti að orði komast, hefði átt að leggja frumvarpið fram á fyrsta fundi þings annan þriðjudag í september. Það hefur hins vegar dregist að mynda nýja ríkisstjórn. Frumvarpið er því lagt fram af starfsstjórn sem situr tímabundið. Aðeins eru þrjú fordæmi fyrir því að slíkar stjórnir hafi lagt fram frumvörp til fjárlaga, en það var árin 1945, 1947 og 1950.

Þegar litið er til umboðs og heimilda starfsstjórnar sem situr til bráðabirgða og gegnir störfum sem nauðsynleg eru við daglega stjórn landsmála er talið að henni beri að leggja fram frumvarp til fjárlaga enda áskilur 42. gr. stjórnarskrárinnar framlagningu þess fyrir það fjárhagsár sem í hönd fer. Stjórnarskráin kveður enn fremur á um í 41. gr. að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ljóst er að hafi fjárlagafrumvarp ekki verið lagt fram og samþykkt fyrir upphaf nýs árs mundi skorta heimildir í lögum til að tryggja framhald og samfellu í starfsemi ríkisins. Skylda til þess að leggja fram fjárlagafrumvarp hvílir á fjármála- og efnahagsráðherra í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarp er nú lagt fram í fyrsta sinn á grundvelli nýrra laga um opinber fjármál. Fjármálastefna og fjármálaáætlun á grunni sömu laga voru lagðar fram í formi tveggja tillagna til þingsályktana í apríl síðastliðnum. Í fjármálastefnunni voru sett fram almenn markmið um þróun opinberra fjármála til fimm ára, en í fjármálaáætluninni kom fram ítarleg útfærsla á markmiðum stefnunnar um tekjur, gjöld og efnahag hins opinberra til næstu fimm ára. Þá var stefnumótun um 34 málefnasvið kynnt í fyrsta sinn. Þingsályktanirnar voru samþykktar af Alþingi í ágúst síðastliðnum og liggja þær ályktanir til grundvallar við gerð þessa frumvarps. Með gildistöku laga um opinber fjármál um síðustu áramót var stigið mikilvægt skref til að treysta umgjörð opinberra fjármála og sköpuð skilyrði fyrir samþættingu markmiða í efnahagsmálum og fjármálum opinberra aðila.

Í nýju lögunum er sérstök áhersla lögð á langtímahugsun, stöðugleika, aga við framkvæmd fjárlaga og bætt reikningsskil. Lögin ná yfir breiðara svið en eldri löggjöf um fjárreiður ríkisins og ná til fjármála hins opinbera í heild sinni, þ.e. bæði til ríkis og sveitarfélaga. Lögin treysta einnig aðkomu Alþingis að því að setja markmið í ríkisfjármálum sem og opinberum fjármálum sem liggja til grundvallar við gerð fjárlaga. Framlagning fjármálaáætlunar og fjármálastefnu síðastliðið vor og nú fjárlagafrumvarps á þeim grunni er mikilvægur liður í því að festa í sessi grunngildi laganna sem eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Samþykkt laga um opinber fjármál er einungis eitt skref í átt að betri nýtingu opinberra fjármuna og ljóst er að innleiðing þeirra umfangsmiklu breytinga sem þau hafa í för með sér verður ærið verkefni fyrir allt stjórnkerfið næstu árin. Með nýju lögunum verður sú meginbreyting á framsetningu frumvarps til fjárlaga að fjárheimildir A-hluta ríkissjóðs verða framvegis sundurgreindar eftir málefnasviðum og málaflokkum en ekki eftir stofnunum og verkefnum eins og verið hefur. Skipting fjárheimilda með þessum hætti styður við markmið laganna um heildstæðari stefnumörkun í opinberum fjármálum og auðveldar Alþingi að meta stefnu og forgangsröðun stjórnvalda. Til samræmis við þetta hefur greinargerð frumvarpsins einnig tekið breytingum. Þannig einskorðast umfjöllunin ekki við einstakar breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna heldur er í frumvarpinu að finna nokkuð ítarlega umfjöllun um stefnumótun einstakra málaflokka í rekstri ríkissjóðs. Þar er m.a. fjallað um markmið og aðgerðir stjórnvalda til næstu ára í viðkomandi málaflokkum og breytingum á fjárheimildum þeim tengdum fyrir næsta fjárlagaár.

Framsetning 1. gr. frumvarpsins tekur mið af alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál og felur í sér aukna áherslu á að mæla efnahagsleg áhrif ríkisfjármála á hagkerfið. Þar eru sýndar meginstærðir ríkisfjármála á þjóðhagsgrunni sem oft er nefndur GFS-staðall, þ.e. áætlun um tekjur og gjöld sundurliðað eftir hagrænni flokkun ásamt breytingum á eignum og skuldum.

2. og 3. gr. frumvarpsins sýna fjárheimildir eftir málefnasviðum og málaflokkum. Þær eru hins vegar settar fram á áþekkum rekstrargrunni og verið hefur, en þó með breytingum á reikningsskilagrunni ríkisins. Þá er í sundurliðun 1 greint nánar frá tekjuáætlun ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni. Sundurliðun 2 sýnir loks skiptingu fjárheimilda eftir málefnasviðum, málaflokkum og ráðuneytum með hagrænni skiptingu.

Með frumvarpinu er lagt fram sérstakt fylgirit þar sem m.a. er sýnd skipting fjárheimilda málaflokka í fjárveitingar til ríkisaðila og annarra verkefna sem tilheyra A-hluta ríkissjóðs. Í fylgiritinu er birtur samanburður á útgjöldum milli ríkisreiknings fyrir næstliðið ár, fjárveitinga á yfirstandandi ári og fjárveitinga á komandi fjárlagaári.

Í lögum um opinber fjármál er einnig mælt fyrir um að birta skuli áætlun um fjárveitingar næstu tveggja ára þar á eftir, en samkvæmt frumvarpi til breytinga á þeim lögum er lagt til að framkvæmd þess ákvæðis verði frestað um eitt ár og verður slíkt áætlun því birt í fyrsta sinn í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga árið 2018. Í stuttu mál má segja að það hafi reynst stjórnkerfinu fullerfitt viðfangs að skipta fjárveitingum þrjú ár fram í tímann. Nóg var að gleypa breytingarnar sem ég hef hér verið að mæla fyrir að þessu sinni og ég treysti því að Alþingi sýni því skilning að stjórnkerfið hafi þó náð þeim árangri í breytingu sem birtist í frumvarpinu og fylgiritinu og við getum sammælst um að fresta þeim þætti sem varðar fjárveitingarnar næstu tvö árin þar á eftir. Eftir sem áður höfum við í höndunum fjármálaáætlunina sem sýnir málefnasviðin og skiptingu á þau fimm ár fram í tímann. Með samanburði og áætlun til lengri tíma en eins árs verður auðveldara að fylgjast með þróun fjárhags ríkisaðila og verkefna með hliðsjón af stefnumótun þeirra. Upplýsingar í fylgiritinu munu þannig auka gagnsæi ásamt því að vitneskja um fjárveitingar berst fyrr en áður til forstöðumanna ríkisstofnana og til annarra rekstraraðila. Það er ótvírætt að lögin eins og þau standa fela í sér réttarbót og ber ótvírætt að stefna að því að næst þegar fjárlög og fylgirit verða lögð fram á þinginu verði þessu lagaákvæði uppfyllt.

Samhliða þeim breytingum á framsetningu fjárlaga sem reifaðar voru hér að framan var ráðuneytum falið að endurskoða framsetningu fjárlagaliða og viðfangsefna í fylgiriti. Markmiðið var að bæta yfirsýn með því að fækka minni háttar útgjaldaliðum og beina þannig sjónum fremur að stærri liðum innan þeirra 100 málaflokka sem fjárheimildir eru veittar til.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 byggist í öllum meginatriðum á þeirri fjármálastefnu og fjármálaáætlun sem samþykkt var af Alþingi í sumar, enda er um að ræða þingsályktanir sem áskilnaður er um að ríkisstjórnin gangi út frá samkvæmt lögum um opinber fjármál. Að auki hefur í frumvarpinu verið tekið tillit til fjárhagsáhrifa sem leiða af nýjum eða breyttum lögum sem Alþingi hefur samþykkt, til að mynda breytingum á lögum um almannatryggingar sem samþykktar voru fyrir nokkrum vikum síðan, en einnig er horft til ákvarðana ríkisstjórnarinnar um nokkur ný málefni sem taka þurfti afstöðu til eftir að fjármálaáætlun var lögð fram í vor, auk annarra útgjaldabreytinga sem ríkissjóður er skuldbundinn til að fjármagna.

Ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar sem tók til starfa árið 2013 hefur byggst á ábyrgri stýringu ríkisfjármála og langtímasýn með ráðdeild og skynsamlega nýtingu sameiginlegra fjármuna landsmanna að leiðarljósi. Veruleg umskipti hafa orðið á stöðu ríkisfjármálanna frá árinu 2013. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað ár frá ári eftir að sjálfvirk skuldasöfnun var stöðvuð með fjárlögum ársins 2014. Er fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 þar með það fjórða í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs. Samanlagður afgangur á heildarafkomu ríkissjóðs árin 2014, 2015 og 2016 stefnir nú í að verða um 96 milljarðar kr. þegar litið er fram hjá um 380 milljarða kr. stöðugleikaframlögum frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja sem bætast við tekjur ríkisins á árinu 2016. Endurspeglar sá árangur að með markvissum aðgerðum hefur tekist að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 er áfram byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með hallalausum fjárlögum undanfarin þrjú ár og er gert ráð fyrir að heildarafkoman skili afgangi sem nemi ríflega 28 milljörðum kr. Það er nokkurn veginn sú útkoma sem ráð var fyrir gert í fjármálaáætluninni fyrir árin 2017–2021, eða um 1% af vergri landsframleiðslu.

Annar meginþáttur í ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið að lækka skuldir ríkisins og draga þar með úr vaxtabyrði. Betri afkoma ríkissjóðs hefur þannig verið nýtt til að greiða niður skuldir ríkisins ásamt því að gerðar hafa verið ráðstafanir í efnahagsreikningnum í þessu skyni. Áætlað er að heildarskuldir ríkissjóðs lækki um nærri 200 milljarða á yfirstandandi ári og þær nemi 1.140 milljörðum kr. samanborið við 1.339 milljarða kr. í lok ársins 2015.

Skuldir ríkisins munu halda áfram að lækka vegna bættrar afkomu ríkissjóðs og stöðugleikaframlaga, en samkvæmt lögum skulu tekjur af stöðugleikaframlögum notaðar til að greiða niður skuldir. Miðað við varfærna áætlun um skuldastýringu ættu heildarskuldir ríkissjóðs að vera komnar niður í því sem næst 1.000 milljarða að nafnvirði fyrir árslok 2017. Það felur í sér að hlutfall heildarskulda ríkisins lækki úr um 60% af vergri landsframleiðslu 2015 í 39% í árslok 2017. Gera áætlanir ráð fyrir að hlutfallið haldi áfram að lækka og verði komið niður í 29% í árslok 2021. Hér er ég að tala um hlutfall heildarskulda ríkisins.

Samkvæmt viðmiðum í fjármálareglu um skuldir í nýju lögunum um opinber fjármál eru sjóðir og bankainnstæður dregnar frá heildarskuldum og kveðið á um að skuldirnar skuli á þann mælikvarða vera fyrir innan 30% af vergri landsframleiðslu. Í lögum um opinber fjármál er horft til heildarskuldanna hjá ríki og sveitarfélögum, síðan dregnir frá þessir liðir, sjóðir og bankainnstæður, og þannig fundin sú skuldaregla sem er í lögunum. Nú horfir til þess að unnt verði að ná því markmiði þegar á árinu 2018 eða 2019.

Vaxtagjöld ríkissjóðs voru um 79 milljarðar árið 2015 en áætlað er að þau nemi um 69 milljörðum árið 2017. Það er lækkun um 10 milljarða á einungis tveimur árum. Eftir sem áður er arfleifð bankahrunsins þung skuldastaða með tilheyrandi vaxtabyrði sem er hærra hlutfall af tekjum hins opinbera en í nokkru ríkja Evrópusambandsins. Enn um hríð verður því áfram eitt helsta úrlausnarefnið að grynnka á skuldum ásamt því að auka traust alþjóðaaðila og fjármálamarkaðarins á stjórn opinberra fjármála til að í boði verði vaxtakjör sem eru nær því sem öðrum þjóðum standa til boða.

Til marks um árangur í þeim efnum er ástæða til að nefna að lánshæfismat ríkissjóðs hjá einum matsaðilanna þriggja var hækkað um tvö þrep í einu í byrjun september. Þessi þróun kemur fleiri aðilum til góða, svo sem opinberum fyrirtækjum og viðskiptabönkunum, stórum fyrirtækjum sem hafa tekjur í erlendri mynt og ýmsum öðrum. Með traustari afkomu og lækkandi vaxtabyrði skapast raunverulegt svigrúm til að takast á við ýmis aðkallandi verkefni eins og uppbyggingu innviða og styrkingu á grunnþjónustu ríkisins sem mun þegar fram í sækir skila íslensku samfélagi miklum ábata.

Virðulegi forseti. Leiðarstef ríkisstjórnarinnar hefur verið að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og treysta umgjörð opinberra fjármála. Þannig hafa skapast forsendur fyrir skattalækkunum og breytingum til að auka skilvirkni skattkerfisins. Stefnan hefur verið að einfalda skattkerfið, draga úr undanþágum og auka jafnræði. Sérstök áhersla hefur verið á að lækka álögur á einstaklinga. Tekjuskattur einstaklinga var lækkaður í tveimur áföngum á tímabilinu 2014–2017. Fyrra skrefið var stigið á árinu 2014, en þá var skattbyrði tekjulægri einstaklinga létt með hækkun neðri þrepamarka tekjuskattsins og lækkun miðþrepsins. Seinna skrefið var lögfest haustið 2015 þar sem þrepum er fækkað í tvö með brottfalli miðþrepsins og lækkun neðra þrepsins. Þær breytingar koma að fullu til framkvæmda 1. janúar næstkomandi. Almenn vörugjöld voru afnumin árið 2015 og allir tollar lagðir niður í tveimur áföngum á þessu ári og því næsta, að tilteknum matvörum undanskildum. Afnám tolla lækkar vöruverð til neytenda, bætir samkeppnishæfni seljenda og eykur skilvirkni á innlendum markaði. Þá hefur tryggingagjald verið lækkað um 0,74% prósentustig á undanförnum tveimur árum og virðisaukaskattskerfinu breytt í átt að meiri skilvirkni og einföldun með því að minnka þrepabilið og fækka undanþágum.

Allar þessar ráðstafanir hafa á undanförnum misserum stutt við kaupmáttaraukningu almennings og skilað sér til heimilanna. Þær hafa sömuleiðis skilað sér til verslunarinnar sem býr nú við samkeppnishæf skilyrði borið saman við löndin í kringum okkur. Þar má nefna t.d. að virðisaukaskattsþrepið almenna á Íslandi er 24%. Það er hvergi lægra á Norðurlöndum.

Í fjárlagafrumvarpinu 2017 eru ekki frekari áform um skattbreytingar aðrar en þær sem þegar hafa verið lögfestar eða áætlaðar í fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Á árunum 2014 og 2015 var hóflegt aðhald í vexti frumútgjalda og fjármunum sérstaklega forgangsraðað í þágu almannatrygginga, heilbrigðismála og menntamála í kjölfar umtalsverðra aðhaldsráðstafana á útgjaldahlið ríkissjóðs á árunum 2009–2012. Í fjárlögum yfirstandandi árs hafa framlög úr ríkissjóði verið aukin til að efla og bæta þjónustu velferðarkerfisins og er vöxtur útgjalda á árinu um 5%. Á árunum 2013–2016 jukust útgjöld til heilbrigðismála um ríflega 20 milljarða kr. að raungildi sem svarar til 13% raunaukningar. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að útgjöldin aukist áfram að raungildi sem nemur 31 milljarði kr., en það jafngildir 18% raunaukningu. Uppsöfnuð raunaukning framlaga til heilbrigðismála verður þannig 34% á tímabilinu 2013–2021 gangi fjármálaáætlunin eftir. Þar af er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist í kringum 7 milljarða að raungildi á næsta ári.

Því til viðbótar liggja fyrir áform um að koma á breyttu greiðsluþátttökukerfi fyrir sjúklinga með einu samræmdu kostnaðarþaki til hagsbóta fyrir sjúklinga. Mun það koma til kasta Alþingis að tryggja útgjaldaheimildir og fjármögnum á fjárlögum til að mæta því. Fyrir þinginu voru kynnt drög að reglugerð um þetta efni þegar lög um greiðsluþátttökukerfið voru afgreidd á Alþingi fyrr á þessu ári. Það má gera ráð fyrir því að þau drög verði kynnt, en útgáfa og undirritun reglugerðarinnar er háð því að fjármögnun verði tryggð fyrir næsta ár.

Svipaða sögu má segja um þróun útgjalda framhaldsskólastigsins. Heildarútgjöld til þess hafa aukist á árunum 2013–2016 um 25% að raungildi. Á sama tíma hefur nemendum fækkað og útgjöld á hvern nemanda hafa því aukist um 36% að raungildi. Áætlað er að ársnemum í framhaldsskólum muni fækka um 21% á næstu árum, m.a. vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Samkvæmt fjármálaáætluninni aukast hins vegar framlög til framhaldsskóla á þeim tíma um 36% að raungildi frá árinu 2013 fram til ársins 2021, sem þýðir að hækkun framlags á hvern nemanda gæti orðið ríflega 70% á umræddu tímabili. Í fjármálaáætluninni hefur einnig verið gert ráð fyrir að rekstrarframlag háskólastigsins hækki að raunvirði um 37% á hvern ársnemanda á þessu sama tímabili, frá 2013–2021.

Í því sambandi er vert að vekja athygli á því að framlög til rannsókna og tæknimála í samkeppnissjóðum jukust um ríflega 60% að raunvirði á þessu tímabili, þ.e. á tímabilinu frá 2013–2016. Ríkisstjórnin tók ákvörðun eftir samþykkt í Vísinda- og tækniráði að stórauka framlögin. Viðbótin var 2,8 milljarðar inn í þessa samkeppnissjóði, en það jafngildir að á árunum 2013–2016 hafi framlögin vaxið um 60% að raunvirði. Áætlunin gerir ráð fyrir að þau haldi áfram að aukast um 5% að raunvirði á næstu fimm árum.

Staða aldraðra og öryrkja hefur verið í brennidepli að undanförnu. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að bæta kjör þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu með hækkun bóta. Ný lög um almannatryggingar hækka ellilífeyrisgreiðslur umtalsvert og miðast við að lífeyrir þeirra sem engar aðrar tekjur hafa verði orðnar jafnháar og lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum innan tveggja ára. Breytingar á almannatryggingakerfinu fela einnig í sér sveigjanlegri starfslok, stuðla að virkari atvinnuþátttöku og einfalda og samræma réttindi og reglur í almannatryggingum og almenna lífeyrissjóðakerfinu. Breytingar á almannatryggingum og frítekjumarki ellilífeyrisþega auka útgjöld ríkissjóðs um samtals 11 milljarða kr. strax á næsta ári og eru viðbótarskuldbinding sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í ríkisfjármálaáætluninni.

Efnahagsleg endurreisn Íslands eftir fall bankakerfisins haustið 2008 er vel á veg komin og eru hagspár fyrir næstu ár afar hagfelldar. Hagvöxtur hefur verið byggður á traustum grunni undanfarin ár. Það er ágætisjafnvægi í þjóðarbúskapnum um þessar mundir. Verðbólga er lítil. Kaupmáttur vex. Atvinnustig er hátt og atvinnuleysi með því minnsta sem við höfum séð. Ágætisvöxtur er í fjárfestingu atvinnuvega samhliða aukningu í einkaneyslu. Heimili og fyrirtæki hafa nýtt hagstæðar aðstæður til að draga úr skuldsetningu og eru í betri stöðu nú en oft áður. Eignir hafa hækkað í verði. Svo mætti halda áfram.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það eru vaxandi líkur á því að þensla kunni að ógna jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar setur viðvarandi þrýsting á krónuna. Laun hafa hækkað verulega umfram framleiðnivöxt og gera má ráð fyrir að framleiðsluspennan nái hámarki í byrjun næsta árs. Breytt umgjörð kjarasamninga er því nauðsynleg en óvissu gætir nú á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að ekki hefur enn orðið af jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins. Ég vonast til þess að okkur auðnist að ljúka því máli á þessu þingi, helst í þessum mánuði. Það er mikið undir, ekki aðeins fyrir vinnumarkaðinn og áframhaldandi frið á vinnumarkaði, heldur er ljóst að ríki og sveitarfélög munu um áramótin þurfa að hækka iðgjöld verulega ef ekki verður brugðist við. Á undanförnum dögum og vikum hefur haldið áfram samtal við heildarsamtökin vegna þess samkomulags sem undirritað var á sínum tíma og stendur enn, enginn hefur sagt sig frá því, en samtalið snýst m.a. um það hvernig við getum aðlagað mögulegt frumvarp sem kæmi þá fram á þessu þingi að þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið frá því málið var lagt fram á síðasta þingi fyrir kosningar.

Það er uppsöfnuð fjárfestingarþörf hins opinbera sem við erum enn að glíma við. Fjárfestingarstig hins opinbera er enn tiltölulega lágt. Framboð á fasteignamarkaði er önnur áskorun sem við þurfum að horfa til á komandi misserum. Það er enn eitt úrlausnarefnið sem við þurfum að vera meðvituð um. Þau þenslumerki í hagkerfinu sem ég hef vikið að krefjast agaðrar hagstjórnar og kalla á réttar áherslur í opinberum fjármálum þannig að þau stuðli ekki að frekari þenslu og ruðningsáhrifum. Áfram verður því þörf fyrir aðhaldssama stefnu um vöxt ríkisútgjalda til að afgangurinn sé í samræmi við fjármálastefnuna og hæfilegur með tilliti til þess hvar við erum stödd á þessu langa hagvaxtarskeiði. Það er ekki hægt að víkja sér frá því mikilvæga verkefni. Þingið hefur að undanförnu fengið ábendingar frá ýmsum, bæði Seðlabankanum og hagsmunasamtökum, um mikilvægi þess að ríkisfjármálin á komandi árum styðji við það mikilvæga verkefni að auka stöðugleika, skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum og halda verðbólgunni í skefjum. Það er leiðin að áframhaldandi aukningu þjóðhagslegs sparnaðar og vinnur að sveiflujöfnun í efnahagslífinu. Á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og jafnvægis í ríkisfjármálunum verður áfram hægt að sækja fram til bættra lífskjara og frekari styrkingar velferðarsamfélagsins í þágu allra landsmanna.

Virðulegi forseti. Ég hef í ljósi þess að þetta frumvarp er í öllum meginatriðum byggt á fjármálaáætlun sem legið hefur fyrir og samþykkt var af Alþingi ákveðið að fara ekki nákvæmlega ofan í einstaka liði, en ég segi undir lok máls míns að það sem við höfum hér í höndunum er fjárlagafrumvarp sem lagt er fram þegar vel árar hjá Íslendingum. Tekjur eru að vaxa. Við fáum aukið svigrúm til þess að gera betur á flestum sviðum. Við aukum framlög í heilbrigðismál. Við aukum framlög í vegamál, samgöngumál, í menntamál og aðra mikilvæga innviði. Við getum á næsta ári dregið úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Við höfum nýlega tekið ákvarðanir um stóreflingu almannatryggingakerfisins, sem er fjármögnuð í þessu frumvarpi, og þannig væri hægt að telja áfram. Landsmenn hafa notið verulegrar aukningar kaupmáttar á þessu ári og í fyrra. Ef fram heldur sem horfir mun kaupmáttur halda áfram að vaxa. En það ber að hafa varann á. Við erum enn skuldsett þjóð. Það er ekki annað ábyrgt en að hafa áfram augun á því mikilvæga verkefni að lækka skuldirnar. Ég vonast til þess eftir samþykkt laganna um opinber fjármál og þann grunn sem við höfum, hina nýju umgjörð, að umræðan um ríkisfjármálin og opinberu fjármálin heilt yfir verði í auknum mæli tekin með hliðsjón af því hvernig við sinnum hlutverki okkar til þess að ná þeim grunngildum sem fest eru í lögin um að vinna að stöðugleika, sjálfbærni, varfærni o.s.frv. Frekari styrking velferðarsamfélagsins er í raun og veru undir í þeirri umræðu.

Það er með þeim orðum sem ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar. Ég óska eftir góðu samstarfi við nefndina, sem ég veit að fæst við gríðarlega krefjandi verkefni undir mikilli tímaþröng. Ég óska mönnum góðs gengi í því starfi. Við bjóðum fram alla aðstoð sem möguleg er úr fjármálaráðuneytinu og ég vonast til þess að okkur takist að afgreiða frumvarpið fyrir jól.