146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Algjör lágmarksáhrif af fækkun þrepa, segir hæstv. ráðherra, 3,8 milljarðar. Við erum samt í þeirri stöðu að við horfum hér á fjárlög þar sem samgönguáætlunin — sem ég man nú ekki betur en hæstv. ráðherra hafi sjálfur samþykkt, ásamt þeirri sem hér stendur, fyrir ekkert mjög mörgum dögum eða vikum eða hvað það var — er ófjármögnuð. Ástæða þess að hún var samþykkt var ekki bara sú að kosningar væru fram undan, heldur var það af því að við vitum öll sem hér erum að það er verulega uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingu í vegakerfinu, bæði eftir niðurskurð undanfarinna ára en líka vegna aukins álags, aukinnar umferðar og aukinnar ferðaþjónustu. Á einhvern hátt verður væntanlega að afla tekna fyrir því að geta staðið undir þessari fjárfestingu sem og auðvitað því sem hefur verið margrætt sem er reksturinn.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að þingið muni nálgast það verkefni sem samþykkt var með 39 samhljóða atkvæðum ekkert fyrir mjög löngu?