146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt varðandi veiðigjöldin sem veldur oft og tíðum ákveðnum misskilningi í opinberum umræðum a.m.k., það er að veiðigjöldin sem við áætlum á næsta ári eru vegna uppgjörs sem var aftur í tímann. Nú held ég að við ættum að hafa ákveðnar áhyggjur af því að ekki skuli finnast loðna sem eru þá tapaðar tekjur vegna þess að veiðigjöldin leggjast í dag á framlegðina. Við höfum hækkað veiðigjöldin á uppsjávarveiðarnar en lækkað þau að sama skapi á bolfiskveiðarnar.

Ég skil vel að hv. þingmaður spyrji sig hvort 5 milljarðar séu há tala í ljósi þess hversu vel hefur gengið hjá útgerðinni á undanförnum árum. En útgerðin hefur verið að greiða hærri veiðigjöld á undanförnum árum. Því miður er rekstrarafkoma útgerðarinnar að dragast verulega saman út af hinni miklu styrkingu krónunnar og þess hve mikið breska pundið hefur veikst. Það held ég að eigi að vera okkur verulega mikið (Forseti hringir.) áhyggjuefni, en það er reyndar allt önnur umræða en sú hvar nákvæmlega við eigum að stilla veiðigjaldinu á þær tegundir sem við setjum það á (Forseti hringir.) í dag. Ég hef einfaldlega verið þeirrar skoðunar að við eigum að hafa (Forseti hringir.) veiðigjöld sem (Forseti hringir.) endurspegla sanngjarnt afgjald fyrir forgang að nýtingu þessara auðlinda.

(Forseti (SJS): Forseti biður hæstv. ráðherra að gæta að tímamörkum.)