146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í raun og veru alltaf með sömu ræðuna. Við tókum ákvörðun um að setja milljarðatugi í að hækka laun til þess að fá lækna heim og halda hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum á Íslandi. Við höfum líka sett milljarða á milljarða ofan í skólana til að halda starfinu þar sterku og öflugu áfram. Þar bíður okkar enn mikil áskorun, á báðum þessum sviðum.

Svo tókum við ákvörðun um að setja milljarðatugi í almannatryggingar til að bæta kjör þeirra sem þar eru. Þess vegna finnst mér hálfódýrt þegar menn koma beint í kjölfarið á þessum risavöxnu ákvörðunum, m.a. um að fjármagna byggingu nýs sjúkrahúss, og segja: Hvers vegna er ekki verið að setja einn milljarð hér og einn milljarð þar í vegi? Þetta er á endanum bara spurning um forgangsröðun. Þetta er ekki spurning um pólitískan vilja til að framkvæma hlutina. Ég er þeirrar skoðunar að skattar á Íslandi séu nú þegar háir og það er í raun og veru alveg ótrúlegt að þegar við erum við topp (Forseti hringir.) hagsveiflunnar og njótum mestu velsældar sem við höfum gert á lýðveldistímanum komi menn hingað upp og segi: Nú verðum við að fara að hækka skattana til að eiga fyrir einhverju af öllu því sem við þurfum að eyða í.