146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[14:48]
Horfa

Benedikt Jóhannesson (V):

Herra forseti. Íslendingar eru nú í afar óvenjulegri aðstöðu. Fáir deila um að hér er almennt gott ástand í efnahagsmálum. Hagvöxtur hefur verið góður ár eftir ár en engu að síður eru blikur á lofti. Við höfum áður verið í svipaðri stöðu þar sem góðærið virtist blasa við um langa framtíð þar til allt fór á verri veg. Á alþingismönnum hvílir sú skylda að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að stöðugleika. Þingsins bíður að taka afstöðu til fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps en eðlilegt er að þingið geri ekki stórvægilegar breytingar nema hafa starfhæfan meiri hluta og ríkisstjórn til að hrinda málum í framkvæmd. Við þessar aðstæður er eðlilegt að við 1. umr. fjárlaga sé rætt um íslenskt efnahagslíf almennt og hvernig opinber fjármál og hagstjórn eigi að vera næstu árin.

Með samþykkt ríkisfjármálaáætlunar var sniðinn stakkurinn fyrir ríkisfjármál næstu árin. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er með afgang upp á 28 milljarða kr., sem er í samræmi við afgang upp á um 1% af vergri landsframleiðslu. Mjög mikilvægt er að þingmenn gleymi ekki þessu markmiði, eins og virðist hafa gerst síðastliðið haust þegar þingheimur samþykkti í einu hljóði útgjöld upp á tugi milljarða án þess að huga um leið að fjármögnun.

Margvíslegar hættur blasa við efnahagslífinu hér á landi á næstunni. Gengi krónunnar stefnir afkomu margra fyrirtækja í stórhættu. Svo kann að fara að krónan styrkist svo mikið að það hafi áhrif til að draga úr straumi ferðamanna til landsins eða fjölgunin verði a.m.k. minni en verið hefur. Áföll erlendis geta líka haft mikil áhrif. Veiking pundsins í kjölfar ákvörðunar Breta að segja sig úr Evrópusambandinu er dæmi um slíkt áfall, en aðilar í ferðaþjónustu segjast strax verða varir við minni eftirspurn frá Bretlandi.

Ómögulegt er að segja til um önnur pólitísk áhrif, t.d. vegna nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum og þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá á Ítalíu. Nauðsynlegt er að kanna til hlítar leiðir til að halda gengi krónunnar stöðugu. Það stuðlar bæði að stöðugleika í efnahagslífinu og skapar forsendur fyrir lækkun vaxta. Í því samhengi má nefna myntráð sem er formleg leið til þess að tengja gengi eins galdmiðils við annan og stærri. Mikilvægt er að kanna og ræða kosti þess og galla. Stöðugt gengi ýtir undir verðstöðugleika en það leysir ekki öll efnahagsvandamál allra, síst af öllu eitt og sér. Fjárlög þurfa einnig að vera ábyrg og í takt við markmið Seðlabankans. Jafnframt þurfa launahækkanir að vera hóflegar og í takt við hagvöxt.

Almennt er talið að hagvöxtur erlendis verði minni á næstunni en áður var búist við vegna vaxandi einangrunarhyggju og viðskiptahindrana. Þetta mun einnig hafa áhrif hér á landi. Þrátt fyrir þróunina að undanförnu býst Seðlabankinn við því að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast. Þetta mun valda því að fyrirtæki munu leitast við að færa störf hátekjufólks úr landi, t.d. hjá tæknimenntuðu fólki. Þessa gætir þegar hjá tæknifyrirtækjum hér á landi. Á meðan flykkist lítt menntað vinnuafl inn í landið. Þessi þróun er þvert á það sem æskilegt getur talist til að halda uppi góðum lífskjörum hér á landi og hagvexti til langs tíma litið. Almennt hefur það gilt undanfarin ár að brottfluttir Íslendingar eru fleiri en heimkomnir.

Kaupmáttur almennings hefur aukist meira en sögur fara af, hvort sem litið er á Ísland eða önnur lönd. En í hagfræðinni er það svo að heimsmetin eru yfirleitt hættumerki jafnvel þótt þau virðist vera jákvæð til skamms tíma litið. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að ríkið sýni aðhald og skili afgangi. Á árunum fyrir hrun ýtti ríkið undir spennu þegar þörf hefði verið á aðhaldi.

Í nýafstöðnum kosningum lögðu flestir stjórnmálaflokkar mikla áherslu á nauðsyn þess að auka útgjöld til heilbrigðiskerfis og skólamála. Á síðustu dögum þingsins var líka samþykkt samgönguáætlun og fleiri liðir sem valda því að afkoma ríkisins verður milli 15 og 20 milljörðum verri en niðurstaða nýframlagðs fjárlagafrumvarps gefur til kynna ef tekið verður tillit til þeirra liða. Á sama tíma eru fyrirhugaðar lækkanir á tekjuskatti um áramót.

Miðað við spá Seðlabankans gæti hagvaxtarskeiðið nú orðið það lengsta í sögu þjóðarinnar. En aftur á móti er líka öruggt að það varir ekki að eilífu. Miklu skiptir að haga rekstri ríkisins þannig að það þoli sveiflur og fari ekki í mikinn mínus við fyrsta andblæ. Þess vegna er augljóst að nú verður ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna ábyrgð.

Í fjárlagafrumvarpi er staðið við fyrirheit í ríkisfjármálaáætlun um afgang upp á u.þ.b. 1% af vergri landsframleiðslu. Margt bendir til þess að þau áform séu brothætt.

Ríkið á miklar eignir sem ekki eru beinn hluti af rekstri þess og margir freistast til þess að nýta þær til að laga afkomuna, t.d. með því að taka af þeim aukaarð. Þar hafa bæði Landsvirkjun og bankarnir verið nefnd til sögunnar. Slíkar arðgreiðslur ætti að nýta til þess að borga niður skuldir ríkisins, rétt eins og allir flokkar hafa verið sammála um að nýta sölu eigna í þeim tilgangi. Með niðurgreiðslu skulda lækkar vaxtabyrði ríkisins en hún er hin hæsta á vestrænum löndum, ekki vegna þess hve skuldirnar eru háar heldur vegna þess hve hátt vaxtastig er hér á landi. Ef ekki kemur til aðhald í ríkisrekstri er hætt við að vextir hækki enn í aðgerðum Seðlabankans til þess að sporna við þenslu.

Rétt er að undirstrika mikilvægi þess að sem víðtækust sátt náist um sölu eigna ríkisins og engin ástæða er til þess að fara sér óðslega í þeim efnum. Ekki má gleyma því að ríkisfyrirtækin Landsnet, Landsvirkjun og Isavia hyggja á fjárfestingar upp á tæplega 50 milljarða kr. á komandi ári. Ekki skal deilt um mikilvægi einstakra framkvæmda heldur undirstrikar þetta tvennt; annars vegar margra ára kyrrstöðu í framkvæmdum í kjölfar hrunsins og hins vegar að ríkisfyrirtæki verða líka að leggja sitt af mörkum til þess að minnka spennuna á vinnumarkaði. Það sama gildir auðvitað um hinar mörgu og nauðsynlegu framkvæmdir ríkisins. Við þurfum að forgangsraða og gera ekki allt í einu.

Mikilvægt er að taka á ríkisfjármálum og horfa á þau í samhengi við stöðuna á vinnumarkaði. Núna á næstu dögum mun frumvarp um breytingu á lífeyriskjörum ríkisstarfsmanna væntanlega verða lagt fyrir þingið á sama tíma og ríkið leggur um 100 milljarða kr. framlag til lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Þetta er framlag ríkisins til að jafna kjör á opinberum og almennum vinnumarkaði en samningsaðilar hafa lýst yfir vilja sínum til þess að taka upp ný vinnubrögð í samningum þannig að launahækkanir skili sér sem kjarabót en ekki sem verðbólga. Þessir samningar eru mikilvægasta verkefnið fram undan og ný ríkisstjórn, hver sem hún verður, þarf að leggjast af alefli á árar með öðrum um að tryggja þennan stöðugleika. Það er engum í hag að hagsveiflur hér á landi séu miklu meiri en hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum.

Herra forseti. Það er ljóst að þingmanna bíður erfitt verkefni, bæði í bráð og lengd. Það er alltaf sælla að gefa en taka. Það er auðveldara að ákveða útgjöld en að afla tekna. Engu að síður er það meginverkefni nýkjörins Alþingis og ríkisstjórnar, þegar hún hefur verið mynduð, að tryggja svo sem verða má að árangri undangenginna ára verði ekki kollsteypt með óhyggilegri stefnu ríkisins. Verkefnin eru mörg og þörf sem stjórnmálaflokkarnir vilja hrinda í framkvæmd og almenningur styður vissulega að grunnstoðir í heilbrigðis- og menntakerfum verði styrktar. Hin napra staðreynd er hins vegar sú að rýmið er ekki eins mikið og flestir virðast hafa haldið. Það þýðir ekki að við eigum að leggja árar í bát heldur miklu frekar að við göngum óhrædd til þess verks að vinna með öðrum að því að tryggja stöðugleika um langa framtíð eins og kostur er á. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lýst yfir vilja sínum með víðtæku samkomulagi. Seðlabankinn hefur sín stjórntæki og ríkið má ekki skerast úr leik með því að hvika frá yfirlýstum markmiðum um ábyrga hagstjórn. Þannig undirbyggjum við samfélag sem stendur á styrkum stoðum og getur byggt upp innviði til framtíðar. Á þessu kjörtímabili geta alþingismenn skráð sig á spjöld sögunnar með því að leggja sitt af mörkum til varanlegs stöðugleika og velsældar. Tækifærið er núna. Freistingar eru vissulega margar og hægt er að finna margar ástæður til þess að beygja af réttri leið. En ef árangur næst þá verður hann bautasteinn um langa framtíð.