146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða yfirferð yfir frumvarpið og viðurkenni að ég hef ekki lesið allan doðrantinn á þeim tæpa sólarhring sem er liðinn síðan ég fékk hann í hendurnar. Það er gott að fá innsýn reyndra þingmanna í stöðu mála. Hún endurspeglar ágætlega þá tilfinningu sem ég hef fyrir frumvarpinu, að ekki sé nóg gert í uppbyggingu innviða, og ég vona að sú rödd fái að heyrast skýrt í nefndinni í framhaldinu.

Það var sérstaklega komið inn á samgönguáætlun og það hvernig ekki er gert ráð fyrir henni í þessu frumvarpi. Hið sama gerði hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fyrr í umræðunni og ég verð að taka undir þau orð, mér þykir þetta furðulegt. Ég hefði haldið að áætlanir ríkisins kölluðust nógu vel á til að geta fundið sér stað í þessu frumvarpi og þess vegna vil ég nefna aðra áætlun ríkisins sem finnur sér stað í frumvarpinu án þess að hafa verið samþykkt. Það er sú tillaga að við lögfestum heimild til Jarðasjóðs til að selja jörðina Þjótanda í Flóahreppi vegna þess að Landsvirkjun áformar að virkja Urriðafoss, en sú virkjun er enn í biðflokki rammaáætlunar.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún myndi taka undir með mér að mögulega hafi fjármálaráðuneytið farið aðeins of geyst, að hér sé heimild sem ekki sé kominn tími til að veita fyrr en Alþingi hefur samþykkt rammaáætlun með þeirri mögulegu breytingu að Urriðafoss verði settur í nýtingu.