146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir ræðu hans og hegg sérstaklega eftir orðunum „hratt og vel“. Það vona ég, miðað við fyrri ræðu mína, að við leggjum áherslu á að gera hlutina vel. Það að gera hlutina hratt getur orsakað mistök, ég tók dæmi varðandi útgjaldaliðinn í þingsályktun um fjármálaáætlun, um sveitarfélög og byggðamál þar sem talað er um 2 milljarða en 22 í fjárlagafrumvarpinu. Það er annaðhvort verið að hækka og fara út fyrir þingsályktunina eða þá að mistök voru gerð í þingsályktuninni. Þetta eru ekki einu dæmin, eins og var talað um í fyrri ræðu, þar sem tölur eru líklega eilítið rangar. Það er rosalega mikilvægt að við förum mjög vel og vandlega yfir frumvarpið eins og það liggur fyrir núna og hægt er betra en hratt að ég held. Jú, það er ákveðin tímapressa en hún er ekkert einstök. Það hafa verið aðrar lausnir á slíkri tímapressu. Mér finnst mikilvægara að gera hlutina vel og ég hlakka til slíks samstarfs innan nefndarinnar sem byrjaði í morgun og lofar góðu. Mig langar að heyra álit formanns fjárlaganefndar um þennan hluta starfsins sem kemur til með að fara fram þar inni.