146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:01]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn hans. Ég sagði já, hratt og vel, en samt ekki hraðar en við ráðum við. Ég held að það sé lykilatriði. Ég vek athygli á því að aðstæður eru óvenjulegar. Það er liðin vika af desembermánuði. Við þurfum að vinna skipulega. Það sem er aftur á móti öðruvísi núna miðað við aðra fjárlagagerð, sem við erum alltaf að horfa til í baksýnisspeglinum, er að við erum með fáa umsagnaraðila að þessu sinni. Það er einfaldlega gert ráð fyrir því í hinu nýja verklagi. Þeir verða mun færri en áður hefur þekkst en við munum að sjálfsögðu fara yfir málaflokka hvers ráðuneytis fyrir sig og spyrja þeirra spurninga sem nefndarmenn vilja fá skýringar á og ræða í framhaldinu um það. En ég veit og gef mér að allir átti sig á því hvað til friðar heyrir í þessum efnum, að vinna að þessu mál og vinna að samstöðu um það.