146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að í öllum aðalatriðum byggir fjárlagafrumvarpið á fjármálaályktuninni sem samþykkt var síðastliðið sumar. Hún fór í mjög umfangsmikla umsagnarvinnu og ítarlega umræðu. Það eru fyrst og fremst frávikin frá þeirri ályktun sem við þurfum að ræða. Ég held að það séu engin stór óvænt tíðindi í fjárlagafrumvarpinu sem geta orðið til þess að þeir aðilar sem munu veita fjárlaganefndinni og þinginu umsögn lendi í vanda við að átta sig á þeim, en ég hef líka samúð með umsagnaraðilum að þurfa vinna að umsögnum. Við erum að ræða fjárlagafrumvarp sem við fengum sjálf afhent fyrir um sólarhring síðan. Umræðan litast eðlilega með einhverjum hætti af því. Starfið mun litast af því í framhaldinu að við vinnum þetta við mjög óvenjulegar aðstæður. En ég held að það komi ekki í veg fyrir að við gerum eins vel og við getum.