146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu hans sem og samþingmönnum mínum fyrir mjög áhugaverðar og ítarlegar ræður. Ég taldi ástæðu til að koma hér upp, þótt ekki hafi verið rætt um það sérstaklega að ráðherrar kæmu í 1. umr., til þess að ræða helstu áherslumál sem við Framsóknarmenn fórum með í gegnum kosningabaráttuna og eru atriði sem við myndum telja að væri mikilvægt að fara í á kjörtímabilinu og þyrftu að einhverju leyti að endurspeglast betur í fjárlagafrumvarpinu.

Það voru að meginefni þrjú mál sem við lögðum mesta áherslu á. Við töluðum fyrir mikilvægi þess að auka enn frekar jöfnuð í samfélaginu með því að fara í grundvallarbreytingar á tekjuskattskerfinu þar sem við horfðum sérstaklega á lækkun skatta á heimili með lægri tekjur og meðaltekjur. Ég tel löngu tímabært að fara í endurskoðun á tekjuskattslöggjöfinni. Við sjáum það ef við opnum lögin hvað búið er að gera margar breytingar á þeim og ég heyri reglulega frá þeim sem vinna með þau lög að þau séu að mörgu leyti orðin mjög erfið að vinna með vegna allra þessara breytinga.

Við Framsóknarmenn höfum lagt áherslu á að það þyrfti að hækka skatta á það sem við köllum ofurlaun og ofurbónusa. Ég vil líka nefna að við höfum verið tilbúin til að skoða breytingar á fjármagnstekjuskattinum og vinna áfram með þær hugmyndir sem fjármálaráðherra hefur m.a. kynnt um það hvernig við getum tryggt að auðlindir okkar, þar með taldar orkuauðlindirnar, skili auknum tekjum í ríkissjóð. Þetta er eitthvað sem ég held að væri mjög áhugavert ef þingið — núna er valdið í okkar höndum — gæti komið sér saman um að fara í þá vinnu. Ég vildi líka nefna, þótt það hafi ekki verið eitt okkar áherslumála, að hægt væri að fara í sambærilega vinnu sem sneri að vaxtastiginu í landinu en það var nokkur umræða um það í kosningabaráttunni.

Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að fara í innviðauppbyggingu, að við þurfum að fara í byggingu nýs spítala. Við Framsóknarmenn lögðum hins vegar mikla áherslu á að það væri rétt að við þyrftum að fara í uppbyggingu en að fara yrði fram ákveðið endurmat á staðsetningunni áður en við tækjum endanlega ákvörðun um það hvort rétt væri að fara í enn frekari uppbyggingu á spítalanum við Hringbraut og skoða jafnvel möguleikann til lengri tíma litið á að byggja nýjan spítala annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan er þriðja atriðið sem ég vildi nefna sérstaklega. Ég hef tekið eftir því að þótt samgöngumál hafi verið rædd hér töluvert virðist aðalatriðið oft vera að ræða samgöngumál annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu þar sem við flest þó búum. Ég ætla sem þingmaður Suðvesturkjördæmis að ræða aðeins samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum það öll sem störfum hér, ekki hvað síst miðsvæðis og í Kraganum, að það getur tekið mjög langan tíma að fara á milli og umferðin er mjög þung á háannatíma. Ég var fyrir stuttu á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem var verið að undirrita samkomulag um undirbúning að innleiðingu hágæðaalmenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu eða borgarlínu. Þar var lögð áherslu á samtalið við okkur, hið opinbera, ríkið, og að tryggja að farið yrði í þetta verkefni og þó að menn hafi kannski ekki verið búnir að negla niður nákvæmlega hvers konar tæki við ætlum að nota í borgarlínuna þá væri mjög mikilvægt að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við viljum að sjálfsögðu halda áfram að vinna að samhliða en eins og bent hefur verið á er gert ráð fyrir að á næstu 25 árum muni fjölga um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu sem samsvarar fjölda íbúa Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðabæjar og ég er ekki sannfærð um að það dugi eitt og sér að horfa á borgarlínuna. Það er mikilvægur þáttur en hins vegar eru mörg önnur stór verkefni sem þarf að huga að. Í samgönguáætlun er nefnt að Sundabraut fari mögulega í einkaframkvæmd. Við þurfum alla vega að ræða hvort það sé eitthvað sem við gætum orðið sammála um. Það kom líka fram að við vinnslu samgönguáætlunar var bent á fjölmörg önnur verkefni, ekki hvað síst mislæg gatnamót, til þess að létta á umferðinni. Fulltrúar Hafnarfjarðar bentu á að þar væru a.m.k. þrenn mislæg gatnamót sem væri mjög mikilvægt að fara í, í samgönguáætlun var horft til Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar en einnig var bent á Hlíðatorgið og svo að sjálfsögðu hugsanleg mislæg gatnamót við Fjarðarhraun og Reykjanesbrautina almennt. Ég held að við þurfum að vera opin fyrir því að skoða allar mögulegar leiðir til að létta á umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki bara spurning um þá fjölgun sem ég benti á heldur líka spár um fjölgun ferðamanna sem virðast flestir vera komnir á bílaleigubíla og það er virkilega farið að taka í.

Ég vil síðan fara aðeins yfir fjárlagafrumvarpið. Í þessum fína doðranti eru stefnuskjöl sem ég ber sannarlega ábyrgð á, sem ég kom að vinnslunni að, sem heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Þar eru tvö mál sem má segja að hægt sé að sjá af textanum að ég hefði gjarnan viljað aukna fjármuni í eða alla vega að við gætum náð saman um að tryggja að við settum fjármuni í á kjörtímabilinu. Það eru breytingar á fæðingarorlofskerfinu og efling þess. Það kemur fram í textanum að við höfum verið að vinna að frumvarpi og höfum sett í umsagnarferli. Það eru líka breytingar á lífeyriskerfi öryrkja. Það sama gildir varðandi það, við höfum horft til þess að gera að mörgu leyti sambærilegar breytingar og voru gerðar fyrir aldraða í haust. Það er áætlað að breytingar á örorkulífeyrinum geti kostað á milli 3–4 milljarða kr. á ári og breytingarnar á fæðingarorlofskerfinu þegar þær verða búnar að taka gildi að fullu, þótt það yrði ekki fyrr en 2021, geti kostað milli 10 og 12 milljarða króna. Hér erum við að tala um verulega fjármuni.

Þá vil ég ræða aðra kostnaðarþætti sem ég hef heyrt aðra þingmenn nefna, og væri eitthvað sem við gætum vonandi skoðað núna í þessari umferð, sem snúa að húsnæðiskerfinu. Það hafa komið ábendingar frá verkalýðshreyfingunni og þeir sem stóðu að samningum varðandi húsnæðismálin töldu nauðsynlegt að bæta við fjármunum upp á 1,5 milljarða í almennar íbúðir til þess að tryggja að staðið yrði við þann fjölda íbúða sem var lofað í tengslum við kjarasamninga. Bæði gerði þingið ákveðnar breytingar á lögunum sem leiddu til aukins kostnaðar og við höfum líka einfaldlega séð að það hefur kostað meira að byggja en menn töldu. Síðan er líka mikilvægt að tryggja fjármagn í svokölluð 1,5% lán sem hafa verið nýtt til byggingar á félagslegu húsnæði. En ég vil í ljósi þenslunnar sem er á Íslandi segja að það er mikilvægt að við gætum að okkur og förum ekki að byggja of mikið þótt mikið sé kallað eftir húsnæði akkúrat núna.

Þá að þáttum sem eru hluti af velferðarráðuneytinu en heyra ekki undir mig heldur heilbrigðisráðuneytið. Það má segja að við tökum við afleiðingunum af sjúkdómum, því að fólk veikist, í gegnum almannatryggingar og ég tel mjög mikilvægt að nefndin finni einhverja leið til að tryggja 1–1,5 milljarða í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga til að draga úr kostnaði sjúklinga. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt, þótt við heyrum mjög gjarnan mest í stóru heilbrigðisstofnun okkar, Landspítalanum, að við horfum til rannsókna á orsökum örorku. Þar sjáum við að meginástæður örorku á Íslandi, t.d. hjá karlmönnum, eru geðraskanir. Þetta kom fram í nýlegri rannsókn á orsökum örorku hjá ungu fólki og þar var bent á mikilvægi þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu og endurhæfingarþjónustu sem við bjóðum fólki upp á. Við þurfum að gera allt sem við mögulega getum, um leið og við bætum kjör fólks sem hefur misst starfsgetuna, til að hjálpa fólki að fá starfsgetuna aftur og komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það er talað um í skjalinu að heilbrigðisráðherra leggi til að mótuð verði endurhæfingarstefna, það verði gert árið 2017. Það fara um 5 milljarðar í heilbrigðistengda endurhæfingu en hins vegar má ekki gleyma því að við erum að setja milljarða í gegnum framlag atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins inn í starfsendurhæfingarsjóð VIRK og mjög mikilvægt að gott samtal sé á milli þeirra sem sinna starfstengdri endurhæfingu og heilbrigðistengdri endurhæfingu. Á þeim grunni getum við hjálpað fólki að öðlast starfsgetuna aftur og komast aftur inn á vinnumarkaðinn svo það geti haldið sínu lífi áfram þótt það veikist eða verði fyrir slysi. Þetta er eitthvað sem ég tel mjög mikilvægt að sé hugað að.

Ég hef óskað eftir því við þingflokkana að við hittumst og förum yfir hvernig við getum lögfest breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustuna, enda fullgiltum við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í haust. Það er mikilvægt að við klárum þær lagabreytingar sem þarf til þess að við getum tekið næstu skref varðandi sáttmálann. Ég vona að það skýrist á næstu dögum um hvað þingið getur náð saman, hvort við getum náð að lögfesta breytingarnar og jafnvel notendastýrða persónulega aðstoð og fleiri þætti sem snúa að breytingum á þessum lögum.

Eins og flestir hafa tekið eftir hef ég farið hér í gegnum mikla útgjaldaliði. Það er oft þannig og ég fann það greinilega þegar ég hlustaði á ræðu félaga minna, virðulegi forseti, að ég var ekki ein um að tala alltaf fyrst um útgjöldin. Ég ætla að fá að ljúka máli mínu með því að nefna hvar tekjurnar gætu hugsanlega verið. Ég vildi óska þess að við myndum ræða það aðeins líka hvað sýn við höfum á það. Þótt við munum ræða bandorm fjármálaráðherra varðandi tekjuhliðina er heildarpakkinn náttúrlega í þessu skjali, bæði tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Við höfum séð það, gott ef ekki kom frétt um það í gær, að hagvöxtur er meiri en gert var ráð fyrir. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á það hverjar tekjur ríkisins verða. Ég held að það sé líka mikilvægt að við förum yfir spár um atvinnuleysi og hvort það kunni að vera möguleiki á að draga enn frekar úr útgjöldum hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Við sjáum í samsetningu þeirra sem eru núna á atvinnuleysisskrá að þar er mjög hátt hlutfall af fólki sem hefur verið lengi á skrá. Þá er átt við fólk sem hefur verið lengur á skrá en sex mánuði og er það um helmingur, 46%, í október. Hlutfall þeirra sem hafa verið lengur en ár er 25%. Ég hef beðið Vinnumálastofnun um tillögur um hvernig sé hægt að aðstoða þennan hóp sérstaklega og svo erum við líka með hátt hlutfall af fólki af erlendum uppruna, langt umfram það hlutfall sem sá hópur er af íbúafjölda. Það þarf að skoða hvort við þurfum að grípa til sérstakra úrræða hvað varðar þessa hópa og hjálpa þeim að fá vinnu og draga þar af leiðandi líka úr útgjöldum vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég vil líka benda á að það gengur mun betur hjá Íbúðalánasjóði en áður og eitt af því sem fjárlaganefnd gæti skoðað eru mögulega meiri arðgreiðslur þeirra stofnana sem ríkið á. Væntanlega væri hægt að skoða síðan þau fjármálafyrirtæki sem ríkið hefur eignast. Við höfum að vísu alltaf verið mjög varkár þegar kemur að því að gera ráð fyrir arðgreiðslum. En ég held að við höfum kannski verið ívið of varkár. Það gæti jafnvel verið skynsamlegt í einhverjum tilvikum að tappa af þeim fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum sem ríkið á.

Og síðan að sjálfsögðu: Ef við höldum áfram að berjast fyrir því að draga úr vaxtakostnaði mun það líka hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Það ætti að gera að verkum að við hefðum eilítið meiri fjármuni til ráðstöfunar.

Það eru síðan nokkur minni mál sem ég geri ráð fyrir að við í velferðarráðuneytinu fáum tækifæri til að koma á framfæri við nefndina, mun lægri upphæðir en ég hef verið að nefna hér. En að lokum vil ég nefna tvö atriði (Forseti hringir.) sem ég er einkar glöð að við fengum loksins fjárveitingu í. Það er nýtt meðferðarheimili sem vonandi opnar á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári og að við höfum fengið aukna fjármuni í öryggisvistanir en sá hópur sem þarf á öryggisvistun að halda er hvað viðkvæmastur af þeim sem við aðstoðum.