146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna þar sem hún fór yfir stefnu síns flokks en talaði einnig sem starfandi ráðherra málaflokksins. Það er ýmislegt í því sem kom fram í fyrri hluta ræðu hv. þingmanns og hæstv. ráðherra, til að mynda um það hvar hægt væri að sækja fé til að nýta í ýmis mál, sem ég er henni fullkomlega sammála um. Má þar nefna skatta á það sem hún nefndi ofurlaun og svo ýmsa orkuskatta. Ég er jafnframt sammála hæstv. ráðherra varðandi það að við þurfum að vera opin fyrir leiðum til að létta á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Það tengist þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um vanfjármagnaða samgönguáætlun.

En það er vegna mála sem tengjast málasviði hæstv. ráðherra sem ég bað um orðið. Mig langar að spyrja nánar út í það og jafnframt beina þeim spurningum til hv. fjárlaganefndar, að hún taki mið af því í störfum sínum. Fyrra atriðið sem ég ætla að spyrja hér um varðar fjármagn í NPA. Á bls. 424 er annars vegar talað um að fella niður 65 millj. kr. tímabundna heimild en hins vegar að veita 65,8 millj. kr. fjárheimild af svigrúmi í samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Ég finn ekkert meira um NPA og ekki meira fjármagn hér í frumvarpinu, en það eru hins vegar nú (Forseti hringir.) þegar í gangi samningar og fjárveiting upp á 150 millj. kr. þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti svarað því hvort þá peninga sé að finna í þessu frumvarpi.