146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að lagastoðin fyrir tilraunaverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð rennur út núna um áramótin. Það er ástæða fyrir því að ég hef haft samband við alla þingflokka og óskað eftir því að við mundum hittast og eiga samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga um það hvernig við getum staðið að lögfestingu þessarar þjónustu, og ég fór í gegnum það í minni ræðu. Það hlýtur að vera hluti af því verkefni sem er fram undan að ná saman um það hvernig við ætlum að lögfesta þjónustuúrræðið, en í framhaldinu, þegar það liggur fyrir, að tryggja það fjármagn sem þarf og hvernig við gerum það. Við höfum verið með viðbótarfjármuni sem hafa farið beint í gegnum verkefnisstjórnina, en síðan hefur það að sjálfsögðu verið þannig að það hafa verið mun meiri fjármunir sem hafa farið í að veita þessa þjónustu í gegnum sveitarfélögin. Þannig að tilraunaverkefnið sjálft hefur kostað mun meira en akkúrat þeir fjármunir sem ríkið hefur verið að setja í þetta.

Það hefur verið bent á og menn hafa kynnt sér það í öðrum löndum — Norðurlöndin hafa kannski verið helsta fyrirmyndin — að það hefur verið mjög dýrt að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð, og að önnur lönd hafa gert það með hagkvæmari hætti. Það er gott að við eigum þetta samtal, án þess að ég fari að segja núna frá fjármögnuninni. Það er hluti af því tækifæri sem við höfum núna að við erum í ákveðinni nýsköpunarstarfsemi hér í þinginu um það hvað við getum náð saman um. Og ekki gleyma því að hluti af nýju fjárlögunum er að það þarf að ná samkomulagi við sveitarfélögin um hvernig eigi að tryggja að við séum ekki að hrúga yfir á þau nýjum skuldbindingum án þess að þau geti staðið undir þeim.