146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu, hvort sem þinginu tekst það eða hvort það sé yfir höfuð mögulegt að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð fyrir áramótin, að við gerum ráð fyrir því að fjármunir séu tryggðir í fjárlögum 2017 fyrir þá sem nú þegar hafa samning, sem rennur þá út nú um áramótin. Ég tel að það sé algjört lágmark og vona að ég fái hæstv. starfandi ráðherra með mér í það að tala fyrir því. Þessu vil ég beina sérstaklega til hv. fjárlaganefndar, að hún haldi vel utan um þetta. Líkt og ég sagði hér í fyrra andsvari mínu sé ég ekki betur en það vanti a.m.k. 85 millj. kr. til þess að vera með samsvarandi upphæð í þessum málaflokki og við höfum haft á þessu ári.

Mig langar að nota tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra út í annað. Hún hefur verið ráðherra þessa málaflokks allt síðasta kjörtímabil og þekkir þess vegna mjög vel til allra innviða hans. Á bls. 424 er lagt til að fjárheimild málaflokksins lækki um 2,9 millj. kr. í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda. Mig langar að spyrja: Við erum búin að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Það er vitað að það mun kalla á ýmsar breytingar, sumar lúta að viðhorfi og aðrar (Forseti hringir.) að fjármagni — er við þær aðstæður rétt að setja aðhaldskröfu eða lækkun ríkisútgjalda inn í þennan málaflokk?