146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið en má til með að lesa tvær setningar upp úr frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Skattlagning matvöru og sölu veitinga- og gistihúsa í neðra virðisaukaskattsþrepinu er því stærsti einstaki liðurinn í skattastyrkjayfirlitinu.“ Sem eru eins og ég sagði áðan 68 milljarðar af þeim 84 milljörðum sem eru reiknaðir hér sem styrkur. Svo segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Með því að festa fingur á skattastyrkjum og meta áhrif þeirra á skatttekjur ár frá ári má stuðla að því að skattastyrkir fái þá rýni og meðhöndlun sem æskilegt er.“

Ég vil hreinlega beina því til nefndarinnar að fylgja þessari síðari setningu, festa fingur á hinum raunverulegu skattastyrkjum frekar en að eltast við það hvað almenningur er að fá mikinn styrk með því að vera að borga aðeins 11% matarskatt, hvort mögulega væri hægt að stuðla að því að skattastyrkir til stóriðjunnar fái raunverulega þá rýni og meðhöndlun sem æskilegt væri, að ekki sé minnst á þann styrk sem þeir sem skjóta undan skatti njóta með því að við undirfjármögnum skattrannsóknir. Sá styrkur hefur verið metinn á 80 milljarða á ári sem er sama upphæð og í frumvarpinu er reiknuð sem styrkur.