146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ef ég dett út í ræðunni og er að fikta í pontunni er það af því að mér hefur þótt hún gríðarlega spennandi fyrirbæri, þessi ponta sem fer upp og niður. Ég bið þingheim þá að hafa þolinmæði gagnvart mér.

Við ræðum hér fjárlagafrumvarpið sem sitjandi hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hefur lagt fram — eða sitjandi, ég veit svo sem ekkert hvort hann er sitjandi eða standandi núna því að ekki er hann í þingsalnum að hlusta á okkur ræða þessi mál, sem ég harma náttúrlega mjög. Það hefði verið gaman að stíga sín fyrstu skref hér og geta átt orðastað við ráðherrann. En það kemur kannski ekki að sök því að við búum við þær aðstæður eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á í dag, að þetta er fjárlagafrumvarp starfsstjórnar. Meira að segja gaf hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson okkur þær leiðbeiningar í framsögu sinni fyrr í dag að það yrði síðan þingsins að gera þær breytingar sem þyrfti að gera, í raun og veru að taka utan um málið og halda áfram með það. Ég verð að lýsa sérstakri ánægju minni með þau fyrirmæli hæstv. fjármálaráðherra og finnst hann hafa áttað sig mjög vel á þeirri stöðu sem uppi er, sem ég hvet okkur öll til að vera meðvituð um, að aldrei þessu vant er — ja, ekki aldrei þessu vant, þetta hefur gerst áður í sögunni, en hér er lagt fram fjárlagafrumvarp starfsstjórnar. Það er ekki meiri hluti sem stendur að baki því og því er það í raun hvers og eins þingmanns að vinna að fjárlagafrumvarpinu eftir eigin samvisku. Bið ég þá þingmenn að hafa í huga það sem þeir töluðu um við kjósendur sína í aðdraganda kosninga. Ég er svo einfaldur maður að trúa því að maður eigi að standa við það sem maður segir, og hafi maður sagt við kjósendur í aðdraganda kosninga að maður vilji sjá ákveðna hluti verða að veruleika eigi maður að nýta fyrsta tækifæri sem maður fær til að láta það verða að veruleika. Ég brýni því okkur öll hér, bæði þá hv. þingmenn sem vinna munu að frumvarpinu í nefndum en einnig okkur hin sem erum hér í þingsal og verðum ekki í nefndum, til þess að nálgast þetta fjárlagafrumvarp þannig; út frá okkar forsendum og út frá því sem við teljum rétt en ekki út frá fyrirframskilgreindum pólitískum línum, flokkslínum. Hér er ekki meiri hluti og minni hluti sem munu takast á um þetta frumvarp.

Eftir að hafa lýst yfir ánægju minni með hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson ætla ég aðeins að draga úr þeirri gleði sem hann hlýtur að hafa fundið fyrir með ánægju mína, með því að lýsa yfir vonbrigðum yfir því að hann skuli ekki hafa tekist á hendur það verkefni sem löggjafarvaldið fól honum skömmu fyrir kosningar, að finna þeim samþykktum stað í fjárlögum sem þingið gerði hér samhljóða, að finna tekjur, og mér þykir leitt að ráðherra skuli hafa ákveðið að heykjast á því verkefni. Hér hafa margir hv. þingmenn talað um samgönguáætlun. Það er óþarfi að rekja það í löngu máli en það er einfaldlega þannig að löggjafarvaldið fól framkvæmdarvaldinu að finna þeirri áætlun stað í fjárlögum, finna þeirri áætlun tekjur. Það tókst ekki og þá er það okkar hér í þinginu að finna út úr því sem og öðru því sem við teljum að betur eigi að fara í þessu fjárlagafrumvarpi.

Það er vandfundnara pólitískara frumvarp en fjárlagafrumvarpið, það er í raun og veru ramminn sem við ætlum okkur að hafa utan um samfélagið á næsta ári. Hv. 10. þm. Reykv. n., Andrés Ingi Jónsson, hefur nefnt það nokkrum sinnum í dag að mismunandi skoðanir fólks á frumvarpinu snúist í grunninn um pólitík. Það er akkúrat málið. Í afgreiðslu okkar á fjárlagafrumvarpinu birtist sú pólitík sem við viljum standa fyrir. Þar birtist sú pólitík sem við kynntum fyrir kjósendum okkar í aðdraganda kosninga og það er okkar að standa keik gagnvart þeim kjósendum og standa við það sem við töluðum um í aðdraganda kosninga.

Þess vegna er hægt að tala lengi um fjárlagafrumvarpið og ekki leiðist okkur þingmönnum að tala lengi. En ég ætla hins vegar ekki endilega að hafa mál mitt neitt óvenjulega langt enda eru mér sett tímamörk eins og öðrum í þessum ræðustól, en mig langar að koma aðeins inn á menntamálin. Ég held að það sé óþarfi að fara í smáatriðum yfir þær tillögur sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Við erum öll með það fyrir framan okkur og við sjáum hvernig útgjöldin eru þar. Sjálfur talaði hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hér fyrr um 2,5 milljarða sem settir yrðu í menntamálin. Það er vel að þangað séu settir auknir fjármunir, en ég segi eins og karlinn í sveitinni þegar kleinufatið var sett fyrir framan hann: Takk fyrir það sem ég hef fengið, vonast til að fá meira. Það er engum blöðum um það að fletta að miðað við hvernig staðan er í menntakerfinu, og það hafa ansi mörg okkar hér inni viðurkennt í aðdraganda kosninga, er meiri fjármuna þörf þar en reiknað er með í þessu fjárlagafrumvarpi. Háskólarektorar sameinuðust um yfirlýsingu þar sem sagði að það þyrfti 2 milljarða kr. strax inn í menntakerfið og svo allt að 6 milljörðum kr. á kjörtímabilinu til að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, markmiðum um að koma framlögum á hvern háskólanema upp í meðaltal OECD á þessu ári. Það mun ekki nást samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi og það er langt í að þeim markmiðum verði náð að framlög á hvern háskólanema náist upp í meðaltal á Norðurlöndunum árið 2022. Það er ljóst að þetta verður ansi afturþungt tímabil verði framlögin í takt við það sem segir í fjárlagafrumvarpinu.

Við segjum öll að menntakerfið sé mikilvægt og höfum mörg hér inni tekið vel í hugmyndir um að ná þessum markmiðum, sem eru markmið Vísinda- og tækniráðs. Það er ljóst að orðum verða að fylgja gjörðir. Það þarf að setja aukna fjármuni þarna inn.

Framhaldsskólarnir eru annar handleggur. Þar vantar einnig töluverða fjármuni. Raunar hef ég löngum talið að það kerfi þurfi mikillar endurskoðunar við, mér hefur þótt allt of mikið verið horft til menntakerfisins út frá fjármunum, út frá hagsmunum atvinnulífsins, út frá hagsmunum einhvers annars en þess að nemendunum líði vel í skólanum, að búið sé vel um þá, að þeir hafi þann tíma sem þeir þurfa til að menntast eins og best verður á kosið, fyrst og fremst af því að það er gott að þeir menntist, en ekki að þeir séu hagstærð í einhverjum reikningum, þó að það geti vissulega verið jákvæð afleiðing af því.

Sjálfur þekki ég vel til í einum menntaskóla, Menntaskólanum í Kópavogi. Þar var staðan sú þegar sex mánaða uppgjör var lagt fram fyrr á þessu ári að það vantaði 20 millj. kr. á fjárframlag ríkisins til að skólinn gæti staðið undir húsaleigu og launum. Það myndi einhver telja að væru grunnatriði í rekstri skóla, en þarna er ekki inni rafmagn, hiti eða vatn, hvað þá að þarna séu inni einhverjar upphæðir varðandi þróun í skólastarfi, aðbúnað nemenda, allt sem gerir skóla að góðum skóla. Þetta er fyrst og fremst afleiðing þess að þegar ríkisvaldið hafði samið við kennara fylgdi að sjálfsögðu ekki, út frá einhverjum rökum sem ég skil ekki, sú upphæð sem þurfti upp á til að standa undir launahækkununum sem ríkisvaldið hafði þó samið um. Ég held að mjög víða í kerfi okkar séu svona brotalamir sem við þurfum að skoða. Ef ríkisvaldið semur á annað borð um ákveðnar launahækkanir getur það ekki neitað að láta framlagið fylgja því. Það er því ljóst að setja þarf aukna fjármuni í framhaldsskólana.

Grunnskólarnir eru vissulega verkefni sveitarfélaganna en staðan þar er hins vegar grafalvarleg, eins og okkur öllum hér ætti að vera ljóst. Það á að vera sameiginlegt verkefni í raun og veru allrar stjórnsýslunnar að reyna að koma þeim málum í skikkanlegt horf. Ég held að það sé skynsamlegt að líta á velferðarsamfélagið, á menntakerfið sem hluta af því, sem eina heild og að það eigi ekki að skipta máli hvaða stjórnsýslustig kemur að einstökum þáttum þess, það á ekki að bitna á þeim sem nýta sér það kerfi. Ríkisvaldið getur ekki verið stikkfrí þó að grunnskólarnir séu á ábyrgð sveitarfélaganna. Við þurfum að skoða tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga. Staða sveitarfélaganna er mun þrengri en staða ríkisins. Við þurfum að taka ábyrgð á því, öll sem erum hér inni, og ég hvet fjárlaganefndarfólk sem og okkur hin til að gera það. Ég beini þessum orðum mínum til nefndarfólks í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sem mun líka fjalla um þessi mál sérstaklega, en einnig okkar allra.

Það hefur mikið verið rætt undanfarna daga um stöðu menntunar, um stöðu nemenda samkvæmt alþjóðlegum könnunum. Við sjáum að skóli eftir skóla þarf að treysta á velvild birgja til að ná til sín nauðsynlegum aðföngum til að geta látið skólahald ganga. Það er alveg augljóst mál að það gengur ekki. Krónur og aurar, nákvæmlega hvert framlagið á að vera, hversu mikil hækkun er í prósentum, er verkefni sem bíður nefndarfólks fyrst og fremst og svo okkar hinna. En ég hvet nefndarfólk í umræddum nefndum sérstaklega til þess að kalla til sín rektora og skólameistara til að fá mynd á þá fjárþörf, hina raunverulegu fjárþörf, ekki þá fjárþörf sem birtist í fjárlagafrumvarpinu eða maður skyldi ætla að það væri þannig fundið út hver upphæðin að vera þar heldur fá til sín fólk úr skólakerfinu, úr menntakerfinu, rektora og skólameistara og fleiri til að mæta hinni raunverulegu þörf.

Allt þetta byggist að sjálfsögðu á tekjum og ég saknaði þess dálítið í máli hæstv. fjármálaráðherra, og raunar finnst mér of fáir hv. þingmenn hafa komið inn á þá hlið mála hér því að útgjöldin tengjast tekjunum. Mér hefur stundum fundist að fyrir sumum stjórnmálamönnum sé mjög viðkvæmt mál að tala um hvernig fjármagna eigi samneysluna, hvernig fara eigi í þá innviðauppbyggingu sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningar, hvernig standa eigi undir rekstri góðs og mannvænlegs samfélags. Það er enginn að leika sér að því að koma á einhverjum gjöldum og sköttum, það gerir enginn af því að hann hefur gaman af því. Við getum skoðað allar leiðir í því, en við getum ekki látið eins og við ætlum ekki að taka þá umræðu. Ég sé ekki betur en að í fjárlagafrumvarpinu núna sé tekjulækkun, afsal á tekjum upp á um 5 milljarða. Fráfarandi ríkisstjórn hefur afsalað sér gríðarlega miklum tekjum í gegnum ýmis gjöld sem hefðu ekki síst lagst á þá sem best standa. Það er miður að við tökum ekki raunverulega pólitíska umræðu um það líka.

En ég ætla aftur að hrósa hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni. Hann lagði okkur þær línur að við tækjum núna við boltanum og færum með þetta mál áfram. Ég kýs að líta svo á að fjárlagafrumvarp ársins 2017 sé nokkurs konar umræðugrundvöllur, hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar um það hvernig hann sér fyrir sér að fjárlögum næsta árs fyrir komið og það sé okkar í þinginu að taka utan um það og fara lengra með það mál.