146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina, sérstaklega vegna þess að ég hef örugglega ekki verið nógu skýr áðan hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að þegar kemur að allra handa innviðauppbyggingu og uppbyggingu ferðamannastaða er tvennt sem skiptir máli; annaðhvort greiða ferðamennirnir það eða við, skattgreiðendur. Ég held að almenna reglan sé sú að ferðamennirnir eigi að greiða fyrir það. Ég held að það sé besta leiðin til að dreifa ferðamönnum og besta leiðin til að byggja upp. Hins vegar verðum við líka að hafa það í huga að þegar Ísland er orðið dýrt ferðamannaland getur það skekkt samkeppnisstöðuna mjög mikið.

Ég held að almenna reglan sé sú með fólk sem ferðast, og það sýna kannanir, að ef menn eru ánægðir með upplifun sína eru þeir tilbúnir til að greiða fyrir hana. Ef þeir greiða hins vegar fyrir eitthvað sem þeim finnst ósanngjarnt og fá ekkert í staðinn, ef upplifunin er ekki góð, þá eru þeir ósáttir. Hins vegar þegar verðlagið er orðið mjög hátt almennt, hvort sem það er fyrir húsnæði, mat, drykk, bílaleigubíla, eldsneytisgjöld o.s.frv., getur það komið niður á ferðum fólks til landsins. Ég held að við eigum að vera dýrt land en ég er ekki alveg viss um að það sé mjög gott að Ísland sé langdýrasta landið. Fyrst hv. þingmaður spyr um gjöld almennt þá finnst mér að við eigum að ræða það heildrænt af því að ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, það er augljóst. Við getum talað um tryggingagjöld, við getum talað um eldsneytisgjöld, áfengisgjöld og ýmislegt annað sem við þurfum að ræða ef við tökum það alvarlega að ferðaþjónustan sé undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, sem hún svo sannarlega er.