146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. s. (Gripið fram í: Norður.) norður — það er hitt kjördæmið, ég er ekki í því — Guðlaugi Þór Þórðarsyni — fyrir þau svör sem hann gaf mér og betri útskýringu á orðum sínum. Takk fyrir það. Ég tek undir það með honum að það er full þörf á því að ræða nánar um þann mikilvæga atvinnuveg sem ferðaþjónustan er. Þar eru margar spurningar og vangaveltur undir og hefur vöxturinn verið mikill þar undanfarin ár. Það er að mínu viti fyllsta tilefni til þess að taka sérstaka umræðu þar um og jafnvel í tengslum við fjárlagafrumvarpið þó að vissulega séu aðstæður dálítið sérstakar núna og tíminn kannski af skornum skammti, ég veit það ekki, í það minnsta tel ég vera tilefni til þess.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson útskýrði að einhverju leyti hvað hann átti við, en mig langar að endurtaka spurningu mína til hans: Telur hann ekki forsvaranlegt að sækja auknar tekjur til ferðaþjónustunnar sem yrðu færðar inn í ríkiskassann og nýttar í samneysluna? Ég skildi það ekki af svari hans við spurningu minni áðan hver afstaða hans væri til þess.