146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara almennt yfir þau atriði sem ég vildi vekja athygli á varðandi fjárlagafrumvarpið, þá þætti sem snúa að mennta- og menningarmálum, íþróttamálum, æskulýðsmálum og fjölmiðlum. Ég vil fyrst víkja að þáttum sem snúa að menningu og listum.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að framlagið hækki úr 10,6 milljörðum í 11,4 milljarða, eða samtals um 7,5%. Þá er horft til þess að styrking sé á grunnstarfsemi og rekstri menningarstofnana upp á 248,4 millj. kr. Sjóðir ýmsir og verkefni sem eru til stuðnings lista- og menningarstarfsemi verða efldir um 207 millj. kr. En síðan er atriði sem ég tel nauðsynlegt að benda sérstaklega á í umræðum á þinginu, og vil beina til hv. nefndar að skoða sérstaklega hér á milli umræðna, sem snúa að höfundaréttargjöldum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir rammar sem snúa að mennta- og menningarmálaráðuneytinu séu hækkaðir um 234 millj. kr. til þess að mæta þeim kostnaði sem verður til vegna höfundaréttargjalda.

Ég tel mikilvægt, í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram þegar við samþykktum frumvarp sem varð að lögum um þennan gjaldstofn, að hafa í huga að hér er ekki um að ræða framlög til menningarstarfsemi og menntamála. Því tel ég að sá þáttur eða þau framlög eigi ekki heima á þessum stað í fjárlagafrumvarpinu. Hvers vegna er það? Jú, virðulegi forseti, því að hér er um að ræða eignarréttindi þeirra sem eiga höfundaréttindi. Ríkið hefur viðurkennt að við getum ekki tryggt þau réttindi með löggæslu og höfum þess vegna greitt bætur, skaðabætur. Þess vegna á ekki að líta á þetta fjárframlag sem framlag til menningarmála heldur er um að ræða bætur vegna þess að við getum ekki tryggt að höfundaréttindi séu virt. Hér er um að ræða eignarréttarmál.

Ég hef bent á það í umræðunni að þó að við legðum niður hið mikilvæga og merkilega mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem einhverjum finnst ábyggilega sniðug hugmynd, myndum við samt sem áður þurfa að greiða þetta gjald. Þarna er um að ræða stjórnarskrárvarin eignarréttindi. Þess vegna á þetta gjald ekki heima á þessum stað og ég beini því til hv. nefndar að skoða þetta þannig að hægt sé að færa þennan lið þangað sem hann á heima, sem er þá hjá fjármálaráðuneytinu sjálfu. Á þetta vildi ég benda og tel mjög mikilvægt að gert verði. Ég lagði fram minnisblað í ríkisstjórn hvað þetta varðaði. Þetta var rætt hér í þinginu og var ágætur samhljómur þingmanna um að svona skyldi haldið á málum.

Hvað varðar fjölmiðlun, íþrótta- og æskulýðsstarf vil ég sérstaklega nefna að hér sér þess stað sem við tókum ákvörðun um, þ.e. að efla mjög styrki til afreksíþrótta í landinu. Það var löngu tímabært, framlög til afreksíþrótta voru komin niður úr öllu valdi, það var einfaldlega ekki lengur hægt að réttlæta að þau væru þetta lág. Við höfum á undanförnum árum verið að efla þann sjóð en nú hafa verið stigin mjög stór skref. Með þessu fjárlagafrumvarpi erum við að auka mjög framlög til afreksíþrótta. Það skiptir miklu máli, ekki bara íþróttanna vegna heldur vegna alls samfélagsins. Það er mjög mikilvægt fyrir æsku landsins að eiga góðar fyrirmyndir og sjá að íslenskir íþróttamenn standa til jafns við íþróttamenn annarra landa. Þar með berast þau skilaboð til æsku landsins að það ráði ekki öllu frá hversu fjölmennum löndum menn koma, heldur hversu hart menn leggja að sér, og þá ekki bara í íþróttum heldur á öðrum sviðum þjóðlífsins. Það eru mikilvæg skilaboð. Það má í raun halda því fram að ekki sé hægt að greiða fyrir þau nokkru verði, þau eru það mikilvæg. En með því að bæta í hvað þetta varðar tel ég að við séum að stíga í rétta átt. Fram undan er þá á næsta og þarnæsta þingi mjög mikilvægt að staðið verði við þá stefnumörkun og haldið áfram að auka til þessa málaflokks, til afreksíþróttastarfsins, um 100 millj. kr. á ári þannig að við stöndum með sjóðinn í u.þ.b. 400 millj. kr. þegar komið verður að lokum þeirrar áætlunar. Þá erum við þó enn, vil ég nefna, virðulegur forseti, ekki búin að ná því sem frændur okkar á Norðurlöndunum eru að gera hvað þennan þátt málsins varðar. En við vonumst jú til þess að okkar íþróttamenn séu á pari við það sem best gerist.

Svo að ég klári íþróttirnar þá erum við að styrkja fleiri þætti þar, t.d. eins og ferðasjóðinn sem skiptir máli fyrir félögin úti á landi, að styðja við þau, starfsemi ÍSÍ o.s.frv. Um þetta geta menn auðvitað lesið í sjálfu frumvarpinu en ég held að það skipti máli.

Ég vil síðan víkja að framhaldsskólanum af því að staða hans hefur verið mjög til umræðu og það fjármagn sem við höfum til skiptanna þar. Það liggur fyrir að rekstrarumhverfi framhaldsskólanna mun gjörbreytast á næstum árum með þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við höfum samþykkt og með þeim breytingum sem nú standa yfir og eru gengnar fram í framhaldsskólakerfinu okkar, þ.e. að við erum að fara úr fjögurra ára kerfi yfir í þriggja ára kerfi. Í ljósi þeirrar staðreyndar að þeim fjármunum sem sparast við þá aðgerð er haldið inni í framhaldsskólunum og með þeim fjármunum sem bætast við í ríkisfjármálaáætluninni liggur fyrir að rekstrarumhverfið mun gjörbreytast.

Virðulegi forseti. Það er mjög kallað eftir því að við byggjum stefnumótun okkar á framtíðarsýn, að það sé einhver sýn um það hvernig við ætlum að leysa ákveðin vandamál eins og til dæmis framhaldsskólann. Við gerum það með skipulegum hætti. Ég tel að með því sem við höfum verið að gera þar, þ.e. að hækka umtalsvert laun kennaranna, fara úr fjögurra ára kerfi yfir í þriggja ára kerfi og nota sparnaðinn til að efla reksturinn og bæta við fjármunum samkvæmt ríkisfjármálaáætlun, séum við að gerbreyta því fyrirkomulagi. Það tekur vissulega nokkur ár og hefur tekið í að mæta þeim niðurskurði sem varð hér í skólakerfinu á sínum tíma. Fyrir því voru auðvitað ástæður, staða ríkissjóðs leyfði ekki annað. En gott og vel. Við höfum verið að vinna okkur út úr því og erum á leiðinni í það. Gangi það eftir, og ekki verða gerðar neinar breytingar á, mun framhaldsskólinn á Íslandi fyllilega standast samanburð við þá fjármögnun sem er til framhaldsskóla á Norðurlöndum. Það er mikið ánægjuefni að þessi stefnumörkun skuli vera komin fram og búið sé að tryggja fjármagn til þess að það gangi eftir. Þetta skiptir miklu máli. Við erum nú þegar að bæta við í þessu fjárlagafrumvarpi og munum halda áfram að gera það á næstu árum samkvæmt fjármálaáætlun.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeirri ákvörðun sem tekin var um að stofna nýjan listframhaldsskóla á sviði tónlistar. Það er gamall draumur margra og hafði verið að stofnaður yrði framhaldsskóli á listasviðinu og höfðu slíkar hugmyndir verið á teikniborðinu um langa tíð. Nú er búið að hrinda slíku í framkvæmd. Sá skóli er orðinn til á framhaldsskólastigi, sem útskrifar til stúdentsprófs, þar sem tónlistin er grundvallarnámsgreinin. Með því erum við líka að viðurkenna að listgrein eins og tónlistin er til jafns við aðrar námsgreinar og getur verið grunnur að stúdentsprófi. Að sjálfsögðu þurfa þeir nemendur sem þar stunda nám að ljúka námi í íslensku, ensku og stærðfræði eins og gert er ráð fyrir í lögum um framhaldsskólann og stúdentsprófið, en þá er tónlistin, listgreinin, kjarni þessa náms. Um leið er líka leyst að stórum hluta úr þeim vandamálum sem hafa verið uppi varðandi framhaldsstigið í tónlistinni. Eins og hv. þingmenn þekkja höfum við töluvert rætt um það vandamál áður. Ég tel að við höfum gert það núna með því að við höfum haldið inni, gerum það í þessu frumvarpi, þeim framlögum sem renna í jöfnunarsjóðinn og eru notuð í tónlistarskólanum víða um landið. Það framlag er áfram og síðan þeir fjármunir sem við setjum nú í að reka þennan skóla. Þar með vona ég að við þurfum ekki lengur að fást við deilumál hvað þetta varðar.

Einnig er bætt í varðandi háskólana. Það eru auknir fjármunir, þeir fara úr 38,6 milljörðum kr. í 40,3 milljarða kr., sem er aukning upp á 4,4%. Hluti af þeirri hækkun fer í að hefja framkvæmdir við Hús íslenskra fræða. Það er nokkuð óvanalegt í þessu frumvarpi að slík framkvæmd sé á rekstrarliðnum með þessum hætti, það er til umhugsunar. En horfa má til þess að þegar þeirri framkvæmd er lokið eru þessir fjármunir áfram til staðar inn í reksturinn og nýtast þá þannig á síðari stigum fjármálaáætlunarinnar. Með öðrum orðum: Fjármögnun til háskólastigsins er nokkuð afturhlaðin hvað þetta varðar, þ.e. þegar þessum framkvæmdum er lokið halda þeir fjármunir sér inni í kerfinu. En eins og hv. þingmenn þekkja þá hefur mikil umræða verið á undanförnum misserum og árum um að enn sé nokkuð langt í land að við náum að komast á sama stað og er á Norðurlöndum hvað varðar fjármögnun háskólastigsins. Menn geta rifist um þá útreikninga, um hvað þeir þýða, en ég held að allir séu sammála um að enn vantar upp á þetta skólastig. Við erum búin að ná þessu og erum að ná þessu hvað varðar framhaldsskólann okkar með þeirri stefnumörkun sem nú liggur fyrir og þeim ákvörðunum sem liggja fyrir á þinginu. Við eigum eftir að klára þetta verkefni hvað varðar háskólana. Um leið þurfum við að gera ýmsar breytingar eða ræða það hvernig fyrirkomulag háskólamenntunar á að vera, hvernig við viljum skipuleggja háskólanámið okkar. Í menntamálaráðuneytinu hefur farið fram mjög gott samstarf og samráð við forystumenn háskólanna, rektora og helstu ráðgjafa þeirra, um hvernig við eigum að nálgast það verkefni. Til eru mikil gögn sem munu nýtast í þeirri stefnumótunarvinnu hér á næstu misserum og skiptir miklu máli að vel takist þar til.

Ég vil nefna eitt alveg sérstaklega. Ég hef tekið eftir því að í umræðum um skólamálin að menn horfa til aukningar á nafnvirði inn í skólakerfið og líta ekki til þeirra fjármuna sem er varið til að hækka laun kennara. Ég er þeirrar skoðunar að laun kennara skipti gríðarlega miklu máli. Þess vegna, þegar við horfum á framlögin til skólakerfisins, er ekki nóg að horfa bara á rekstrarframlögin heldur eigum við líka að horfa á þá hækkun sem hefur orðið á launum kennara, t.d. á framhaldsskólastiginu, sem er umtalsverð hækkun. Þetta eru allt fjármunir sem munu nýtast í menntun barnanna. Betur launaðir kennarar eru líklegri til þess að ná betri árangri, góð laun kennara eru líklegri til að laða að hæfa starfskrafta í framtíðinni. Þetta þekkjum við og þetta á að virða þegar menn horfa á heildarfjármögnunina eða heildarframlagið til málaflokksins. Það sama á við um háskólastigið. Allt skiptir þetta máli samanvirt. Ég vil því segja að þegar horft er á þetta fjárlagafrumvarp þá ber það með sér að okkur er að takast á öllum meginsviðum að efla starfsemina. Við erum að koma út úr erfiðu skeiði sem hefur kostað okkur heilmikla vinnu að fara í gegnum. Ég vil nota tækifærið og þakka, héðan úr ræðustól Alþingis, skólafólkinu okkar, kennurum, skólameisturum og skólastjórum, fyrir frábæra vinnu við að koma okkur í gegnum þennan skafl; vonandi er það ávísun á að betri tímar séu fram undan varðandi rekstur menntakerfisins. Það skiptir miklu máli, virðulegi forseti.

Ég vil nota tækifærið héðan úr ræðustólnum til að nefna mál sem heilmikið hefur verið rætt um og ég tel nauðsynlegt að skýra. Það er hin svokallaða 25 ára regla sem hefur verið til umræðu varðandi framhaldsskólakerfið. Sú umræða hefur að nokkru byggst á misskilningi. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við það en vil þó segja eitt alveg sérstaklega. Þegar takmarkaðir fjármunir eru til skiptanna þýðir það, hvort sem manni líkar það betur eða verr, að það þarf að forgangsraða. Staða okkar var þannig, þegar við tókum við árið 2013 — einungis voru rúmar 900 þús. kr. á verðlagi ársins 2016 á hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu, á meðan grunnskólanemandinn var með 1,6 milljónir — að það þurfti að forgangsraða með ákveðnum hætti. Við gerðum það með því að beina þeim sem voru 25 ára og eldri inn í kerfi sem búið var að setja mikla fjármuni í að byggja upp sem er fullorðinsfræðslan. Það er með sama hætti og gert er í Noregi og Svíþjóð svo að dæmi séu tekin frá löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Það þýddi ekki að þessum einstaklingum, 25 ára og eldri, væri meinað um aðgang að kerfinu en við vorum ekki að greiða sérstaklega fyrir það. Það gat síðan verið ákvörðun skólameistara á hverjum stað hvernig á þeim málum var haldið. En þetta þurfti að gera meðan við vorum að lyfta upp fjármagni á hvern nemanda, það þurfti að forgangsraða og taka svona ákvarðanir. Síðan geta menn rætt í framhaldinu hvað menn vilja gera með þá stefnumótun þegar við erum komin með meira fjármagn á hvern nemanda eins og stefnir í. Ég er þó þeirrar skoðunar að mjög þung rök séu fyrir því að við eigum að hafa mikinn metnað varðandi fullorðinsfræðsluna rétt eins og menn hafa á Norðurlöndunum og tryggja að þeir sem eru eldri og hafa einhverra hluta vegna dottið út úr kerfinu fái síðar nám við hæfi. Ég er ekkert endilega sannfærður um að þegar maður er orðinn 25 til 35 ára sé endilega besta lausnin að setjast á skólabekk með 16 ára, í skólakerfi sem er fyrir 16–19 ára. Það er í það minnsta ekki sú leið sem frændur okkar á Norðurlöndum hafa almennt farið. Það er til umhugsunar hvernig við stöndum síðan að frekari uppbyggingu fullorðinsfræðslu í landinu en við erum nú þegar búin að búa til heilmikið net sem tengist háskólunum sem býður upp á leið fyrir þá sem eru orðnir fullorðnir að fara í gegnum það kerfi og inn í háskólakerfið. Allt er þetta til umræðu og eðlilegt að svo sé, en ástæðan fyrir því að þessi leið var farin var sú að við urðum að forgangsraða, urðum að tryggja að meiri peningar yrðu á hvern nemanda. Það er að ganga eftir og ég er mjög stoltur af því að Alþingi skuli hafa ákveðið með fjármálaáætluninni að gera það.

Virðulegi forseti. Þetta voru helstu atriði sem ég vildi nefna hvað varðar stöðu menntunar, menningar og íþrótta í þessu fjárlagafrumvarpi.