146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðuna með frumvarpi um ýmsar forsendur fjárlaga. Það er auðvitað hægt að fara margar leiðir. Það er margt sem er áhugavert og eitt og annað sem vekur upp spurningar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um 16. gr., sem tengist hækkun á kolefnisgjaldinu. Þar er lagt til að fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti hækki um 2,2% eða í samræmi við verðlagsforsendur á milli áranna 2016 og 2017. Ég velti því fyrir mér að hreinlegasta leiðin til þess að minnka kolefni og til þess að framfylgja Parísarsáttmálanum sé einfaldasta leiðin að hækka kolefnisgjöldin.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fram á breytingar á þessu tiltekna gjaldi, kolefnisgjaldinu, þá til hækkunar þannig að við Íslendingar getum framfylgt þeim skuldbindingum sem við viljum öll að verði framfylgt. Ég held ég geti fullyrt að við öll hér í þingsalnum viljum að Parísarsáttmálanum verði framfylgt. Sér hæstv. ráðherra fram á að við uppfyllum þau skilyrði sem við höfum skrifað undir og skuldbundið okkur til að uppfylla samkvæmt Parísarsáttmálanum? Hvernig verður það gert? Verður það gert með hækkun á kolefnisgjaldi umfram verðlagsforsendur, eða á hvaða annan hátt sér ráðherra það gert?