146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er lagt til að þetta umrædda gjald hækki umfram verðlagsforsendur eins og önnur krónutölugjöld og skattar í frumvarpinu. Í öðru lagi er í frumvarpinu sömuleiðis að finna framlengingu á bráðabirgðaákvæði til þess að hvetja til þess að við hröðum orkuskiptum í samgöngum þannig að einkabíllinn verði umhverfisvænni en hinir hefðbundnu bensín- og dísilbílar. Í þriðja lagi mundi ég vilja nefna hér að eldsneyti á Íslandi til samgangna er með því dýrara sem gerist þannig að ég held að sé varasamt að einblína um of á kolefnisgjöldin, á eldsneyti, til þess að ná þessum markmiðum. Við skulum sömuleiðis hafa það í huga að Ísland er strjálbýlt land og þetta getur komið sérstaklega þungt niður á landsbyggðinni, á byggðum víða um landið.

Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er unnið að heildarendurskoðun á þessu sviði, til að mynda á vörugjöldum á bifreiðar og samspil þessara þátta til þess að einfalda kerfið, gera það skilvirkara og fara aftur yfir markmiðin, m.a. í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga sem við höfum undirgengist, og meta árangurinn af þeim breytingum sem við höfum unnið að á undanförnum árum. Þar held ég að séu hvað mestu sóknarfærin fyrir okkur. En eins og allir þekkja höfum við á undanförnum árum unnið eftir þeirri meginreglu að eftir því sem bifreiðar losa minna af gróðurhúsalofttegundum þeim mun lægri eru aðflutningsgjöldin. Þetta kerfi í heild sinni er til endurskoðunar og hefur vinnunni við það miðað ágætlega og ætti að styttast í að vinnuhópurinn skili af sér niðurstöðum.