146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar við gerum breytingar á lögum í þeim yfirlýsta tilgangi að hafa jákvæð áhrif á þróun mála þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verðum við að skoða málið heildstætt. Þar verður þá allt að vera undir. Ég tel að það séu skýr merki í þessu frumvarpi um að við séum að breyta rétt. Þá vísa ég í það sem ég hef áður sagt um framlenginguna vegna innflutnings á umhverfisvænni bifreiðum. Varðandi kolefnisgjöldin held ég að væri varasamt að fara að hækka þau mjög hressilega til viðbótar við það sem hér er lagt til. Svo eru allir hinir þættirnir sem verða að vera með í umræðunni, t.d. orkuskipti í sjávarútvegi þar sem sem betur fer er verið að kaupa nýrri og sparneytnari skip, að ekki sé nú sleppt úr umræðunni endurheimt votlendis. (Forseti hringir.) Þar er hægt að ná hvað mestum árangri í því að stöðva losun.