146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði líka að fá að nefna örstutt, við verðum kannski að taka þessa umræðu um kolefnisgjaldið seinna í víðtækara samhengi, að auðvitað ættum við að hafa hér á borðum heildstæða áætlun frá fráfarandi ríkisstjórn af því að búið er að ákveða að fullgilda Parísarsáttmálann. Við hefðum viljað fá miklu skýrari sýn á það hvernig við ætlum að gera það, kolefnisgjald og allt annað.

Aðeins varðandi húsnæðisstuðninginn af því að rætt var um vaxtabætur, rætt var um vaxtabætur í frumvarpi hæstv. ráðherra og í framsögu. Það kom fram í framsögunni að enn þá væri unnið að heildarendurskoðun húsnæðisstuðnings. Það er vissulega rétt. Það er unnið að heildarendurskoðun húsnæðisstuðnings svo rækilega að það eru komin mjög mörg kerfi sem eiga að sinna húsnæðisstuðningi. Við kláruðum eitt slíkt undir lok síðasta þings sem var sérstakur stuðningur við ungt fólk til kaupa á fyrstu íbúð. En á sama tíma og öll þessi heildarendurskoðun hefur staðið yfir eru ákvarðanir í raun og veru teknar í gegnum fjárlög. Það höfum við séð með þróun vaxtabótakerfisins, sem við höfum gagnrýnt ítrekað. Þær hafa farið niður án þess að raunveruleg umræða hafi farið fram um það hvernig við ætlum að þróa húsnæðisstuðningskerfið. Á sama tíma er verið að setja upp ný stuðningskerfi þannig að kerfið er í raun og veru orðið flóknara en áður. Almenningur áttar sig ekki á því hvert er verið að stefna af því að aldrei hefur verið tekin raunveruleg pólitísk umræða um það hvort við ætlum að (Forseti hringir.) falla frá vaxtabótakerfinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé þörf á heildrænni sýn í þeim málum, þ.e. hvað varðar húsnæðisstuðning. Þessi þróun vaxtabótakerfisins hefur í raun og veru orðið í gegnum fjárlagaákvarðanir en ekki í gegnum heildarpólitíska umræðu í salnum.