146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég tel að það mætti segja að við hefðum mátt hafa heildstæðari mynd af þróun þessara stuðningskerfa þegar við erum að gera breytingar. Það er ekki alveg einfalt. Við gerðum t.d. breytingar á húsnæðiskerfunum í tengslum við gerð kjarasamninga og húsnæðisfrumvörpin sem unnin voru í félagsmálaráðuneytinu gerðu ráð fyrir húsnæðisbótakerfi sem með ákveðnum hætti kallast á við barnabóta- og vaxtabótakerfin. Svo höfum við verið með ýmsar sértækar aðgerðir á undanförnum árum, skuldaniðurfellingar, 110%-leiðin og síðan núna stuðningur vegna kaupa á fyrstu fasteign. Þegar við veltum þessum kerfum fyrir okkur þurfum við líka að horfa til tenginganna við tekjuskattskerfið og skoða þá sérstaklega jaðaráhrif í skattkerfinu. Því er ég öllu sammála. Ég held að við hefðum getað gert betur í því að hafa heildarstöðuna skýrari.