146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að víkja örlítið að hækkun krónutölugjalda á áfengi og eldsneyti. Hækkunin er 2,5% umfram verðlag og þau rök eru talin fram að það sé til þess að slá á þenslu. Nú veit ég að við hæstv. fjármálaráðherra erum sammála um að hlutverk skattkerfisins er a.m.k. það að afla ríkinu tekna, síður það að gegna tekjujöfnunarhlutverki eða einhverju hlutverki í neyslustýringu. Að mínu mati hefur skattkerfið heldur ekki og á ekki að gegna hagstjórnarhlutverki. Mér finnst örla á því að því sé beitt hér í þeim tilgangi. Ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því og einnig skoðun hans á því hvort hann telji virkilega líklegt að þessi krónutöluhækkun slái á þenslu.

Það er rakið í athugasemdum með frumvarpinu að áhrifin af þessari krónutöluhækkun séu 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs. Áhrifin hljóta þó að vera eitthvað umfram það. Hefur verið skoðað hvaða áhrif þetta hefur á verðbólguvæntingar til framtíðar t.d., vegna þess að þetta skerðir kaupmátt heimilanna eins og viðurkennt er í frumvarpinu? Það gerir það að nokkru leyti umfram það með því m.a. að hafa áhrif á verðtryggðar skuldir heimilanna.

Ég velti fyrir mér af hverju það eru þessir vöruflokkar enn og aftur, hvort það sé einhvers konar kækur að hnýta alltaf í áfengið (Forseti hringir.) og heimilisbílinn þegar kemur að tekjuöflun og það gert undir, ég leyfi mér að segja mögulega fölskum forsendum.