146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðu hennar. Það var margt sem kom þar fram sem ég get tekið undir, eins og það hvernig við eigum markvisst og markvissara að byggja upp ferðamannaþjónustuna, ferðamannaiðnaðinn eins og sumir kalla það. Það skiptir máli að við ræðum í stærra samhengi hvernig við ætlum að gera það, hvort sem er um komugjald að ræða, hærra gistináttagjald, sem m.a. er í því frumvarpi sem um ræðir, eða aðrar leiðir. Það þarf að vera gert markvisst og skýrt af því að byggja þarf upp innviðina svo þetta molni ekki innan einhverra ára.

Eftir stendur að ég vil heils hugar taka undir með hv. þingmanni varðandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og í menntakerfinu. Ég vil draga fram að ég held að flestir flokkar, ef ekki allir, hafi sett þetta ofarlega á stefnuskrá sína fyrir kosningar. Líka það að við þurfum að sjá fram á ýmsar aðrar leiðir til að auka jöfnuð og jöfn tækifæri, hvort sem það er innan menntakerfisins eða heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisþjónustunnar. Eftir stendur að ég er frekar treg almennt í grunnprinsippinu til að hækka skatta, en við verðum líka að læra af reynslunni og við sjáum fram á að lækkun skatta er varhugaverð þegar merki um þenslu eru yfirvofandi. Ég benti á heilbrigðisþjónustuna áðan, sem hv. þingmaður ræddi um. Við þurfum aukið fjármagn þar. Við heyrum núna að það þarf aukið fjármagn m.a. í göng, Dýrafjarðargöngin, mikilvæg framkvæmd. Við erum að tala um mennta- og heilbrigðiskerfið.

Stór partur af ríkisútgjöldunum er vaxtakostnaðurinn. Við verðum að reyna að ná vaxtaútgjöldum ríkissjóðs niður. Þá hlýtur að koma til skoðunar á þessu kjörtímabili m.a. hvernig við gerum það, til að mynda með því að selja ríkiseigur eins og bankana. Ég vil undirstrika að við eigum að fara varlega í því. Mig langar að fá viðhorf hv. þingmanns til þess hvort hún sjái fyrir sér á kjörtímabilinu að við reynum að lækka vaxtakostnað (Forseti hringir.) ríkisins með því að selja eins og hluta af bönkunum til þess að við getum síðan í framhaldinu sett meira í og styrkt heilbrigðis- og menntakerfið.