146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:45]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Þegar lagt er af stað í ferðalag er gott að spyrja sig: Hvar er ég? Hvert vil ég fara? Síðan þegar svörin við þeim spurningum liggja fyrir er kannski gott að spyrja hvaða leið eigi að fara og kannski hvaða dót þurfi að taka með.

Þegar við ræðum um skatta er gott nálgast það út frá þessu sjónarmiði og þessum spurningum. Hvar erum við og hvert viljum við fara?

Hvar erum við þegar kemur að heildarskattheimtu? Ef við lítum á tölur frá OECD, tölur um heildarskattheimtu út frá vergri landsframleiðslu, eru skattar hér háir. Heildarskattheimta nemur hér á landi yfir 40% af vergri landsframleiðslu. Með þessu móti vorum við í 8. sæti á þeim lista árið 2014. Og ef við myndum taka tillit til þess að í flestum þessara ríkja eru lífeyrissjóðir fjármagnaðir með skattheimtu, en í okkar tilfelli er það með einhvers konar skyldusparnaði, söfnunarkerfum, endum við líklegast enn hærra, einhvers staðar í efstu fimm sætum.

Vissulega eru sumir skattar hér lægri og aðrir hærri og ef menn vilja ná fram ákveðnum hughrifum í umræðunni er auðvelt að benda á þau dæmi annaðhvort til að vilja lækka skatta á mat eða hækka skatta á fyrirtæki, en allar þessar litlu eða stóru hreyfingar verður að skoða út frá spurningunni: Hvert viljum við fara? Um svarið við þeirri spurningu erum við ekki öll sammála.

Við gætum tekið þá afstöðu að Ísland ætti að vera það land í heimi sem væri efst á þeim lista, væri með hæstu skattana á þessum mælikvarða. Við gætum ýtt þeirri tölu úr 40% yfir í 50%, farið þá upp fyrir Dani þegar kemur að skattbyrði. Ég veit að margir hefðu ekkert á móti því og ég tek fram að ég ber fulla virðingu fyrir því. Þetta er, eins og var sagt áðan, ein af grundvallarspurningum í stjórnmálum: Hve mikið á ríkið að gera? Ég ber virðingu fyrir því að við tökumst á um þetta. Ég fæddist sjálfur í landi þar sem það var ekki gert. Í því ríki voru engar deilur á þingi, engir næturfundir, engin sérstök átök um fjárlög. Stjórnarandstaðan var aldrei með málþóf, enda var kannski engin stjórnarandstaða eða hún var þá ekki í sama húsi og stjórnarliðarnir. Stjórnarandstæðingar voru annars staðar þannig að ég fagna því sérstaklega að við skulum vera hér í sama húsi, á einum stað, að deila um þessi mál.

Ég ber virðingu fyrir þeim sem vilja auka umsvif hins opinbera en ég er ekki þar og hvorki ég né Viðreisn höfum talað fyrir því að minnka nú um stundir heildarskattheimtu. Tillögur okkar fyrir kosningar voru hlutlausar hvað þetta varðar.

Skattar í dag eru, eins og áður sagði, 40% af vergri landsframleiðslu. Ef við vildum koma okkur í 50% gætum við reynt það og ef við viljum reyna gætum við gert það með misskilvirkum, mishagkvæmum og missanngjörnum hætti. Skilvirkt skatteftirlit er sanngjörn leið. Hærri gjöld vegna afnota af auðlindum eru sanngjörn og skilvirk leið. Bílastæðagjöld eru mjög sanngjörn og skilvirk leið. Ýmiss konar græn skattheimta getur verið sanngjörn og skilvirk aðferð sem um leið hjálpar okkur að ná ákveðnu markmiði sem við höfum sett okkur. En allar þessar leiðir auka tekjur og þar með umsvif hins opinbera ef ekkert annað er gert á móti.

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Í því er að finna margar tillögur, flestar þeirra eru til tekjuaukningar sem kann vel að vera að þurfi. Þær ríma misvel við áherslur mínar og Viðreisnar. Kolefnisgjöld eða gistináttaskattur, gott og vel. Hærri nefskattar? Ég veit það þekki, ég á erfitt að sjá hvernig skattur sem leggst jafnt á alla óháð tekjum sé sanngjarn.

En í öllum tilfellum held ég að hærri gjöld á nýtingu náttúruauðlinda væru hagkvæmari og sanngjarnari leið til að ná í fé en þær sem hér eru lagðar til og líklegast hagkvæmari og sanngjarnari en margar aðrar skattaleiðir sem notaðar eru í dag, eins og t.d. skattur á vexti, fjármagnstekjuskattur þar sem vaxtagreiðslurnar ná varla verðbólguprósentu.

Þegar ég tala um auðlindagjöld eða uppboðsleiðir er ég ekki aðeins að hugsa um að auka varanlega tekjur ríkissjóðs heldur að sjálfsögðu að aðrar álögur geti þá lækkað á móti. Ég held að almennt séð ættum við að líta meira í þá átt sem samráðsvettvangur um aukna hagsæld skilaði fyrr á þessu ári í skattatillögum sínum, en þar var einmitt litið til þess að breyta tekjuhluta ríkissjóðs á þann veg sem hér var nefndur. Hærri auðlindagjöld, hærri grænir skattar, einfaldara skattkerfi, lægri skattar á lágar tekjur, lægri álögur á fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Þótt það kunni að vera freistandi að nota gott árferði til að auka varanlega ríkisútgjöld eru þar víti sem þarf að varast. Ég vil ekki vera þekktur sem einn af millihrunsþingmönnunum. Þau loforð sem ég og við í Viðreisn gáfum í kosningabaráttunni voru ekki að auka umsvif ríkisins eða minnka þau. Loforðin voru þau að nýta tækifærin nú þegar ágætlega viðrar til að búa okkur undir framtíðina. Ég og við í Viðreisn munum vinna að þessu frumvarpi í takt við þau loforð.